
Daily Mail segir frá þessu og birtir hluta af viðtalinu á vef sínum.
Talið er að Pútín hafi eignast Luizu, sem heitir réttu nafni Elizaveta Krivonogikh, með konu að nafni Svetlana Krivonogikh sem starfaði við ræstingar. Luiza var óþekkt þar til rússneski fjölmiðillinn Proekt, sem gagnrýninn er á Pútín og stjórn hans, opinberaði hið meinta faðerni árið 2020 og hefur verið talsvert fjallað um hana síðan þá.
Það var úkraínski sjónvarpsmaðurinn Dmytro Sviatnenko sem elti Luizu uppi í París þar sem hún er búsett. Dmytro missti bróður sinn í eldflaugaárás í Úkraínu fyrir þremur vikum.
„Fyrir þremur vikum drap faðir þinn bróður minn,“ sagði Dmytro og spurði Luizu hvernig hún gæti búið í hinni „hatursfullu“ Evrópu eins og Pútín hefur lýst. „Segðu eitthvað! Styðurðu stefnu hans?,“ spurði Dmytro og var Luiza treg til svara til að byrja með.
Luiza: „Þú fékkst ekki leyfi til að taka mig upp.“
Dmytro: „Veistu, Kænugarður er rafmagnslaus í augnablikinu og loftvarnarviðvörun í gangi. Við gáfum heldur ekkert leyfi fyrir því. Hvernig líst þér á stefnu föður þíns? Styðurðu hann? Styðurðu hann?“
Luiza: „Hvað hefur þetta með mig að gera?“
Dmytro: „Hann er faðir þinn. Þú gætir að minnsta kosti hringt í hann núna og sagt: „Pabbi, hættu að skjóta á Kænugarð.“
Luiza: „Auðvitað.“
Dmytro: „Gerðu það þá.“
Luiza talaði í tóni sem gaf til kynna að það væri vonlaust fyrir hana að tala um fyrir hinum vægðarlausa forseta Rússlands. Dmytro hélt áfram og bauð Luizu að koma til Úkraínu og sjá með eigin augum stöðu mála á stríðshrjáðum svæðum landsins.
„Því miður get ég ekki hjálpað þér. Mér þykir það mjög leitt,“ sagði Luiza og bætti við að henni þætti leitt það sem væri að gerast í Úkraínu. „Ég held að ég hafi nú þegar talað nóg. Mér þykir leitt að þetta sé að gerast. Því miður er ég ekki ábyrg fyrir þessari stöðu.“