
Það var svo þann 25. nóvember að faðir Rebeccu, sem hafði leitað hennar dag og nótt, gekk fram á lík hennar í skóglendi skammt frá heimili móður hennar. Óhætt er að segja að skelfileg sjón hafi mætt föðurnum því búið var að fjarlægja barnið úr móðurlífi Rebeccu.
Lögregla hefur rannsakað málið undanfarna daga og tilkynntu saksóknarar í fyrradag að par hefði verið handtekið, grunað um morðið á Rebeccu.
Það sem gerir málið sérstaklega óhugnanlegt er að hin handteknu eru móðir Rebeccu og stjúpfaðir hennar, Cortney og Bradley Bartholomew, 40 og 47 ára.
Cortney og Bradley voru úrskurðuð í gæsluvarðhald og sagði saksóknarinn, Johanna Carey, fyrir dómi að þau hefðu frelsissvipt Rebeccu daginn sem hún hvarf og farið með hana á heimili sitt þar sem hún var bundin. Þau óku svo með hana á afskekktan stað þar sem þau stungu hana til bana og fjarlægðu barnið úr móðurlífi hennar. Við sama tilefni sagði Carey að barnið hefði ekki lifað af, en gaf ekki frekari upplýsingar.
Bartholomew-hjónin hafa verið ákærð fyrir tvö morð, pyntingar, samsæri og árás á barnshafandi konu með það að markmiði að valda fósturláti eða andvana fæðingu.
Tveir aðrir fjölskyldumeðlimir höfðu áður verið ákærðir í tengslum við málið, þar á meðal systir Rebeccu, sem er sökuð um að ljúga að lögreglu og unnusti Rebeccu, Richard Falor.
Rannsókn lögreglu heldur áfram en í samtali við Detroit Free Press í gær sagði frænka Bradley að hann og Cortney hefðu viljað eignast barn en ekki getað orðið barnshafandi.
Málið hefur valdið miklu uppnámi í samfélaginu og mættu tugir manna í dómsal til að krefjast réttlætis fyrir Park og barn hennar.
