
Wiedenhofer hitti Ed í matvöruversluninni Meijer í bænum Brighton í Michigan á dögunum þar sem Ed var að raða vörum í poka fyrir viðskiptavini.
Þrátt fyrir að vera kominn fast að níræðu þarf Ed, sem er fyrrverandi hermaður, að vinna fullt starf til að ná endum saman.
Þetta gerðist eftir að Ed missti eiginkonu sína til áratuga af völdum veikinda og lífeyri sinn eftir vandræði General Motors þar sem hann starfaði allt til ársins 1999.
Ed og eiginkona hans, Joan, áttu tvö börn og lifðu tiltölulega þægilegu lífi, allt þar til hún veiktist alvarlega. „Þegar þeir tóku lífeyrinn tóku þeir líka sjúkratryggingarnar og allt nema 10.000 dali af líftryggingunni minni,“ sagði Ed í viðtalinu með tárin í augunum.
Til að standa straum af kostnaði við heilbrigðisþjónustu þurfi Ed að selja eigur sínar og loks fara aftur á vinnumarkaðinn til að eiga í sig og á. Joan lést fyrir sjö árum.
Viðtalið vakti gríðarlega athygli og er skemmst frá því að segja að blásið var til söfnunar á vefnum GoFundMe. Almenningur virðist sýna stöðu Ed skilning því ein og hálf milljón dollara, tæpar 200 milljónir króna, hafa safnast fyrir hann.
Í samtali við New York Post segir sonur Ed og Joan, Michael, að faðir hans sé djúpt snortinn af rausnarlegum viðbrögðum almennings. „Ég veit hvaða þýðingu þetta hefur fyrir hann og þetta mun gjörsamlega breyta lífi hans. Hann getur loksins notið lífsins og hætt að hafa áhyggjur af því hvaðan næsti dalur kemur.”
Í viðtali við WXYZ, eftir að Ed steig fyrst fram, sagðist Ed vera heppinn að Guð hafi gefið honum nógu hraustan líkama til að geta staðið við afgreiðsluborðið í átta klukkustundir á dag.
Sonur hans Michael segir að falleg athöfn fari fram annað kvöld í vinnunni hans þar sem Ed fær afhenta ávísun með upphæðinni. Samtök fyrir hermenn á eftirlaunum á svæðinu munu einnig halda sérstaka heiðursathöfn fyrir hann.