
DV sagði frá málinu á föstudag, en atvikið varð rétt fyrir miðnætti þann 7. desember síðastliðinn þegar hjónin pöntuðu sér mat frá Arby‘s í gegnum heimsendingarfyrirtækið DoorDash.
Ekki leið á löngu þar til hjónin áttuðu sig á því að eitthvað bogið var við matinn. Eiginkona hans byrjaði að hósta óstjórnlega eftir að hafa tekið tvo bita og að lokum kastaði hún upp.
Sjá einnig: Eiginkonan varð veik eftir heimsendan mat – Brá mikið þegar hann sá Ring-upptökuna
Mark, sem einnig kastaði upp og fékk sviða í háls og munn, tók svo eftir því að einhvers konar efni var á pokanum sem maturinn kom í.
Mark brá á það ráð að kíkja á myndavél sem er í dyrabjöllunni við útidyrahurðina og þá sá hann að konan sem kom með matinn hafði úðað einhverju á hann áður en hún yfirgaf svæðið. Kvaðst Mark ganga út frá því að um hafi verið að ræða piparúða.
Sendillinn sem um ræðir heitir Kourtney Stevenson og segir Fox News frá því að hún hafi gefið heldur ótrúverðuga skýringu þegar lögregla ræddi við hana vegna málsins. Sagði hún að könguló hefði verið ofan í pokanum og hún hafi einungis ætlað sér að drepa hana.
Kourtney er búsett í Kentucky þar sem hún var handtekin og á hún framsal til Indiana yfir höfði sér. Hún hefur verið ákærð vegna málsins og gæti þurft að sitja inni.
Mark var ómyrkur í máli eftir atvikið og gagnrýndi fyrirtækið fyrir að taka málinu ekki sérstaklega alvarlega þegar hann hringdi og kvartaði.
„Þetta hefði getað verið hvaða efni sem er. Rottueitur eða fentanýl, þess vegna. Konan mín gæti auðveldlega verið dáin núna,“ sagði hann í viðtali í síðustu viku.