
Leikarinn Peter Greene fannst látinn á heimili sínu á föstudaginn. Greene gerði garðinn frægan í kvikmyndum á borð við The Mask, Pulp Fiction, Training Day, The Usual Suspects og The Continental. Hann fagnaði sextugsafmæli sínu í október á þessu ári.
Nágranni Greene lýsti aðkomunni á föstudaginn í samtali við fjölmiðla: „Peter lá á grúfu á gólfinu, með áverka á andliti, blóð úti um allt.“
New York Daily News greinir frá því að undarleg skilaboð hafi fundist á miða við hlið leikarans. Þar stóð: „Ég er enn Westie,“ en þetta er vísun til glæpagengis írskra Bandaríkjamanna sem var áberandi í hverfinu Hells Kitchen í New York borg á áttunda áratug síðustu aldar.
Lögreglan telur ekki að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti, en krufning hefur enn ekki farið fram svo banamein leikarans er óvíst. Greene lætur eftir sig 16 ára son.
Umboðsmaður Greene og vinur til margra ára, Gregg Edwards, hefur staðfest andlátið og minnist vinar síns í yfirlýsingu til fjölmiðla: „Hann var svo sannarlega einn af bestu leikurum okkar kynslóða. Hjarta hans var eins stórt og þau verða. Ég mun sakna hans. Hann var frábær vinur.“
Greene átti að leika á móti stórleikaranum Mickey Rourke í spennumynd sem kallast Mascots. Framleiðsla hófst nú í vetur og átti myndin að koma út á næsta ári.