
Réttlætið hefur látið á sér standa í Stillwater Oklahoma að mati fjölskyldna þolenda Jesse Mack Butler, sem sleppur við fangelsisvist þrátt fyrir hrottaleg kynferðisbrot.
Butler er 18 ára gamall og var sakaður um röð hrottalegra brota sem voru framin þegar hann var 16 og 17 ára gamall. Meðal annars var hann ákærður fyrir nauðganir, meðal annars fyrir nauðgun með aðskotarhlut, fyrir ofbeldi í nánu sambandi og fyrir brot gegn nálgunarbanni. Hann átti yfir höfði sér allt að 78 ár í fangelsi en þess í stað var hann sóttur til saka sem ungmenni. Þetta varð til þess að hann var ekki dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi heldur þarf hann að sæta eftirliti, gangast undir sálfræðimeðferð, sinna samfélagsþjónustu og fylgja útivistarbanni á kvöldin.
Foreldrar eins þolandans segja réttlætinu hafa verið gróflega misboðið með þessum málalokum. Dómskerfið hafi brugðist dóttur þeirra. „Samfélagsþjónusta og sálfræðimeðferð er ekkert á við það sem hann gerði henni, hvað hann tók frá henni,“ sagði móðir stúlkunnar. Foreldrarnir stíga fram í von um að geta verndað aðra. Þau vilja að allir þekki nafn Jesse Mack Butler svo konur geti passað sig á honum í framtíðinni.
Dóttir þeirra, Kate, var 16 ára þegar hún byrjaði að slá sér upp með Butler. Hann var hennar fyrsti kærasti. Foreldarnir segja að hann hafi í fyrstu gefið af sér góðan þokka en svo fóru þau að taka eftir breytingum í fari dóttur sinnar.
Samkvæmt dómsgögnum voru sakirnar gegn Butler alvarlegar. Hann þrengdi að hálsi eins þolanda síns af svo miklum krafti að hún var nær dauða en lífi. Einn þolandinn orðaði það svo að Butler hefði „kæft rödd mína, gleði og getuna til að upplifa öryggi í eigin líkama.“
Hann beitti þolendur sína ítrekað kynferðisofbeldi og hótaði þeim barsmíðum ef þær myndu segja frá ofbeldinu.
Málið hefur vakið mikla reiði. Kallað hefur verið eftir því að dómaranum í málinu verði vikið frá störfum og að málið verði tekið aftur til meðferðar. Það misbjóði réttarvitund almennings að gerandi sleppi svona vel undan jafn hrottalegum brotum, en Butler játaði skýlaust sök í málinu. Sumir hafa velt því fyrir sér hvort Butler hafi sloppið svona vel því hann kemur úr fjölskyldu sem í virt í samfélaginu.
Foreldrar Kate hafa lagt fram kæru þar sem því er haldið fram að réttarkerfið hafi brotið gegn mannréttindum hennar.