
Það er hollt að hreyfa sig. Þetta vita flestir en það vita þó ekki allir að það getur haft gífurlega neikvæð áhrif á líkamann að sitja of mikið, sem eru ekki góð tíðindi fyrir skrifstofufólk.
Að sitja of lengi hægir á efnaskiptum líkamans þar sem fita er brotin niður. Til að vinna gegn þessu er gott að standa upp á 30-60 mínútna fresti.
Að sitja of lengi hefur það óhjákvæmilega í för með sér að vöðvarnir okkar eru ekki að hafa mikið fyrir lífinu. Þetta getur með tíð og tíma leitt til þess að vöðvarnir hreinlega gefast upp, verða aumari og rýrna. Til að vinna gegn þessu er mikilvægt að standa reglulega upp úr sæti sínu og hreyfa sig smá, eins er gott að stunda styrktaræfingar um 2-3 sinnum í viku.
Að sitja of lengi hjálpar ekki blóðrásinni heldur gerir henni erfiðara fyrir. Þetta getur leitt til þrenginga í æðum fótleggjanna og til hækkaðs blóðþrýstings. Þetta eykur hættuna á æðahnútum og blóðtappa. Það hjálpar enn og aftur að standa upp og hreyfa sig og eins er gott að spenna vöðvana í fótleggjunum til að hjálpa blóðinu að skila sér betur til hjartans. Sniðugt er líka að taka stutta göngutúra.
Við setjum mikið álag á mænuna með því að sitja of lengi. Ekki bætir úr skák að mörg sitjum við í kolrangri líkamsstöðu þar sem hálsinn verður eins fyrir óþarfa álagi. Þetta getur valdið vöðvabólgu að ógleymdum bakverkjum. Það er því nauðsynlegt fyrir heilsu hryggsins að huga að líkamsstöðu og gefa líkamanum reglulegar pásur frá því að sitja með því að standa upp.
Talið er að óhóflegt hreyfingarleysi geti aukið líkurnar á hjarta- og æðasjúkdómum um allt að 147 prósent. Til að sporna við þessu er best að hreyfa sig í minnst 150 mínútur á viku.
Blessuð beinin okkar fá líka að finna fyrir því þegar við sitjum of mikið. Þegar við sitjum þá er ekkert álag lengur á beinunum í mjöðmum okkar og fótleggjum. Það gæti hljómað eins og beinin væru að fá kærkomna pásu en raunin er önnur. Þetta álag á beinin er nauðsynlegt til örva myndum þeirra frumna sem byggja upp beinin okkar, osteoblasta. Með því að sitja of mikið getum við þannig aukið líkur á beinþynningu. Til að vinna gegn þessu er mælt með styrktar- og þolþjálfun, með hæfilegu álagi, nokkrum sinnum í viku.
Ótrúlegt en satt þá getum við orðið þreytt af því að sitja. Við erum þannig að takmarka blóð- og súrefnisflæði til vöðvanna. Að hreyfa sig á hálftíma fresti getur unnið gegn þessu.
Þegar við sitjum hægist á blóðrásinni og blóð safnast fyrir í bláæðum fótanna. Þetta víkkar æðarnar með tíð og tíma sem getur valdið kvalarfullum æðahnútum. Þetta getur orðið enn verra þegar við krossleggjum fæturnar þar sem það hindrar blóðflæðið enn frekar. Hér er enn og aftur minnt á mikilvægi þess að standa reglulega upp og eins er gott að teygja og spenna vöðvana í fótunum til að koma blóðinu aftur á hreyfingu.