
Aldraður faðir hefur verið handtekinn í Flórída eftir að hafa skotið son sinn í kjölfar rifrildis.
Hinn 84 ára gamli William Nowak, sem búsettur er í borginni Palm Bay, var afar ónægður með að sonurinn hafði ekki verið nægilega duglegur að heimsækja foreldra sína.
Þegar sonurinn leit loks við um helgina ásamt eiginkonu sinni braust út rifrildi og það endaði með því að Nowak vísaði syninum á dyr og hótaði honum með skammbyssu ef hann myndi ekki yfirgefa húsið. Sonurinn vék hvergi og að endingu reif Nowak byssuna á loft og skaut soninn í andlitið.
Sonurinn særðist illa en talið er að hann muni lifa árásina af.
Nowak bjó ásamt langveikri eiginkonu sinni og fjölfatlaðri dóttur, systur fórnarlambsins, á heimili sínu og var sá sem hélt heimilinu gangandi.