
Hún mætti að vísu of seint – og var góð ástæða fyrir því – og tók dóttir hennar við verðlaununum. Maria mætti svo sjálf til Oslóar seint í gærkvöldi.
Wall Street Journal (WSJ) segir frá því að Maria hafi laumast úr landi fyrr í vikunni, en hún hefur dvalið í úthverfi Caracas, höfuðborgar Venesúela, að undanförnu.
Með henni í för voru tveir aðstoðarmenn og þurftu þau að komast óséð fram hjá hermönnum sem voru gráir fyrir járnum. Þau lögðu svo upp í hættulega sjóferð þar sem komið var við í eyríkinu Curacao í Karíbahafi.
Maria er sögð hafa verið með hárkollu á höfðinu og í dulargervi til að forðast það að einhver gæti borið kennsl á hana.
Heimildarmaður WSJ segir að bandarískum yfirvöldum hafi verið gert viðvart um flóttann, en eins og kunnugt er hefur bandaríski herinn gert miskunnarlausar árásir á báta á þessu sama hafsvæði sem grunaðir eru um að flytja fíkniefni.
Óvíst er þó að hvaða marki ríkisstjórn Donalds Trump kom að flóttanum, en Maria hefur farið fögrum orðum um Bandaríkjaforseta og eru þau bandamenn.
Í frétt WSJ kemur fram að flótti Machado hafi verið í undirbúningi í marga mánuði. Naut hún aðstoðar hóps sem sérhæfir sig í að aðstoða fólk við að komast frá landinu.
Eftir að Maria kom til Curacao fékk hún að hvíla sig yfir nótt áður en hún tók einkaþotu til Noregs.
Maria fékk friðarverðlaunin fyrir „óþreytandi starf “ við að efla lýðræðisleg réttindi fólksins í Venesúela og fyrir baráttu sína fyrir friðsamlegri umbreytingu frá einræði til lýðræðis.