
Mark, sem starfaði sem smiður, ruddist inn á heimili Tressu í Panama City þann 1. febrúar árið 1989 þegar hún var ein heima. Hann hafði árið áður unnið við framkvæmdir á heimilinu og kannaðist því við fjölskylduna og heimilið.
Viku fyrir morðið rakst Mark á Tressu og tvö börn hennar í verslunarmiðstöð í borginni og spjölluðu þau stuttlega saman. Tressu urðu á þau mistök að segja honum frá því að eiginmaður hennar væri fjarverandi í nokkra daga vegna vinnuferðar og hún því ein með börnin tvö.
Síðar nálgaðist Mark átta ára son hennar í tölvuleikjasal og spurði hvenær faðir hans kæmi heim og á hvaða tímum hann og systir hans færu og kæmu úr skóla, samkvæmt skjölum málsins.
Hann réðst til atlögu að morgni 1. febrúar og var það átta ára sonur Tressu sem kom að henni látinni á eldhúsgólfinu eftir að hann kom heim úr skólanum. Hafði Tressa verið stungin til bana.
Leiddi rannsókn í ljós að Mark hafði veðsett skartgripi Tressu og fannst meðal annars blóð úr henni á einhverjum þeirra. Þá fann lögregla plastbönd í bíl hans sem samsvöruðu plastböndum sem notuð voru til að binda Tressu áður en hún var myrt.
Talskona fangelsismála í Flórída, Jordan Kirkland, sagði við AP-fréttaveituna að átta manns úr fjölskyldu Tressu hefðu verið viðstödd aftökuna í fangelsinu. Enginn þeirra talaði beint við fjölmiðla eftir aftökuna.