
Wedding þessi var áður þekktur snjóbrettakappi sem keppti meðal annars á Vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City árið 2002, en síðustu ár hefur hann verið þekktur fyrir glæpi sína og er hann í hópi þeirra tíu sem FBI leggur hvað mesta áherslu á að finna.
Wedding er 44 ára en hann er grunaður um að vera höfuðpaurinn í alþjóðlegum glæpahring sem sýslar með fíkniefni. Hann keppti á snjóbretti í risasvigi fyrir hönd Kanada á leikunum 2002 þar sem hann endaði í 24. sæti.
Skrifstofa FBI í Los Angeles birti myndina hér að ofan af Wedding en talið er að hún hafi verið tekin í Mexíkó í sumar. Hann er talinn vera búsettur þar og segist FBI telja að hann njóti verndar Sinaloa-glæpasamtakanna sem eru ein þau stærstu í heimi. Myndina hér að neðan birtu mexíkósk yfirvöld en ekki liggur fyrir hvenær hún var tekin. Hún hefur þó ekki komið fyrir sjónir almennings áður.
Hefur lögregla heitið hverjum þeim sem gefur upplýsingar sem leiða til handtöku hans 15 milljónir dollara, um tveggja milljarða króna, en hann er talinn hafa skipulagt smygl á hundruðum kílóa af kókaíni frá Kólumbíu, í gegnum Mexíkó og til Bandaríkjanna og Kanada.
Þá er hann einnig grunaður um að hafa fyrirskipað nokkur morð, þar á meðal morð í Kanada. Hefur Kash Patel, yfirmaður FBI, líkt Wedding við fíkniefnabaróninn Pablo Escobar.
