
Er tónlistarkonan Taylor Swift hægrisinnaður nasisti? Slíkt mátti ráða af furðulegri umræðu sem fór af stað eftir að Swift gaf út plötu sína Showgirl snemma í október. Rolling Stone greinir nú frá því að umræðan sé í raun afleiðing laumulegrar herferðar gervimenna á samfélagsmiðlum. Ekki er víst hver eða hverjir stóðu á bak við hana og hvað henni var ætlað. Það sé þó möguleiki að öflin að baki hafi verið að gera tilraun til að undirbúa stærri herferðir gegn einstaklingum eða hugmyndafræði í netheimum.
Rolling Stone rekur að sala plötunnar hafi farið vel af stað enda Swift ein vinsælasta tónlistarkona heims. Eftir útgáfuna fór þó fljótlega að bera á undarlegum færslum í netheimum þar sem fólk velti því fyrir sér hvort Swift væri að senda leyniskilaboð með lögum sínum. Þessar færslur vöktu gífurlega athygli og fljótlega var Swift sökuð um að vera gallharður Trumpisti og jafnvel öfgafullur þjóðernissinni. Harðir aðdáendur söngkonunnar komu henni til varnar og sögðu að vinstrimenn væru ekki að gera sér neina greiða með því að mála Swift upp sem nasista. Rolling Stone tekur fram að verjendur Swift hafi þó ekki áttað sig á því að þeir væru í raun að rífast við færslur frá gervimennum og gáfu færslunum um leið meira vægi.
Það er fyrirtækið GUDEA sem hefur rakið umræðuna en það er sérhæft í því að rekja ófrægingarherferðir á netinu. Fyrirtækið rakti rúmlega 24 þúsund færslur frá um 18 þúsund notendum á 14 miðlum. Niðurstaðan var sú að um 3,77 prósent notenda bæru ábyrgð á um 28 prósent umræðunnar um Swift í kjölfar útgáfu plötunnar á tímabilinu 4.-18. október. Þessir notendur voru að dreifa samsæriskenningum á borð við að hún væri nasisti, Trumpisti og að hún ætlaði sér að verða heimavinnandi hefðbundin húsmóðir eftir að hún gengi að eiga unnusta sinn, Travis Kelce.
Færslurnar hafi komið frá gervimennum eða svokölluðum bottum sem birtu færslur og skrifuðu athugasemdir af miklum móð á tímabilinu. Þetta vakti svo athygli raunverulegra notenda sem ýmist vöktu athygli á samsæriskenningunum, tóku undir þær eða komu tónlistarkonunni til varna. Þetta jók dreifinguna gífurlega. Loks fóru áhrifavaldar að fjalla um þetta í myndbandaformi enda til þess fallið að skila þeim áhorfi og smellum. Allt þetta þrátt fyrir að flestum þættu samsæriskenningarnar galnar og úr lausu lofti gripnar.
Stofnandi GUDEA, Keith Prelsey, segir í samtali við Rolling Stone: „Internetið er falsað,“ og bendir á að um helmingur þess sem fólk sér á netinu í dag komi frá gervimennum. GUDEA hefur séð dæmi um að herferðum sem þessum sé beitt í persónunjósnum sem og til að rústa mannorði fólks. Herferðin gegn Swift virðist eiga margt sameiginlegt með sambærilegri herferð gegn leikkonunni Blake Lively sem fór í gang í tengslum við kvikmyndina It Ends With Us og deilur Lively við leikstjóra myndarinnar, Justin Baldoni.
Greinilegt sé að um skipulagða árás sé að ræða og að aðilarnir á bak við hana viti nákvæmlega hvað þeir eru að gera. Mögulega séu þarna erlendir aðilar á bak við sem vildu kanna hvort þeir gætu fært aðdáendahóp Swift, sem hefur orðið tákn vinstrimanna í Bandaríkjunum, til hægri og hvaða framtíðartækifæri gætu falist í slíku valdi.