
Ránið í Louvre-safninu þann 19. október síðastliðinn þar sem óprúttnir aðilar komust inn í safnið með bíræfnum hætti og stálu ómetanlegum krúnudjásnum að andvirði 102 milljón dala heldur áfram að vinda upp á sig.
Síðan ránið átti sér stað hafa öryggisráðstafanir safnsins verið rannsakaðar í þaula. Og nú er meðal annars komið í ljós að lykilorðið að eftirlitskerfi safnsins var einfaldlega Louvre, samkvæmt starfsmanni safnsins sem þekkir til kerfisins.
Í vitnisburði fyrir nefnd franskrar öldungadeildar í síðasta mánuði sagði Laurence des Cars, forseti og forstöðumaður Louvre, að eina myndavélin sem var sett upp fyrir utan Apollo-sal safnsins hafi snúið til vesturs. Vélin hefði ekki hulið gluggann þar sem þjófarnir notuðu rafmagnsverkfæri til að brjótast inn og út.
Að auki sagði Des Cars að öll viðvörunarkerfi safnsins hefðu virkað, sem og myndavélarnar, en benti á „veikleika“ í öryggisgæslu safnsins „vegna vanfjárfestingar“.
Frönsku rannsóknarlögreglumennirnir sögðu að allt ránið, frá upphafi til flótta ræningjana með feng sinn, hefði tekið sjö mínútur og að þjófarnir hefðu notað lyftu á vörubíl til að komast út úr Apollo-salnum.
Forstjóri Louvre-safnsins sagði við öldungadeildina: „Öryggiskerfið, eins og það var sett upp í Apollo-salnum, virkaði fullkomlega. Spurningin sem vaknar er hvernig eigi að aðlaga þetta kerfi að nýrri tegund árása og aðferðum sem við hefðum ekki getað séð fyrir.“
Þrátt fyrir að hafa lofað öryggiskerfið í Louvre-safninu og sagt það virka rétt, bætti des Cars við: „Í dag erum við vitni að hræðilegri bilun í Louvre. Öryggi Louvre-safnsins er eitt af mínum helstu forgangsverkefnum á kjörtímabili mínu og ég endurtek að ég var agndofa yfir öryggisástandi safnsins þegar ég kom til starfa þar árið 2021.“

Rannsókn á ráninu stendur enn yfir og ránsfengurinn hefur enn ekki fundist, þrátt fyrir að fjórir grunaðir hafi verið ákærðir í tengslum við ránið.
Í útvarpsviðtali við Franceinfo á sunnudag sagði saksóknari Parísar, Laure Beccuau, að yfirvöld væru enn að leita að týndu skartgripunum.
„Allar leiðir eru kannaðar,“ sagði Beccuau.
Hún bætti við að handtökurnar fjórar hefðu „leitt til nýrra leita og upptöku nýrra hluta sem verið er að skoða“ og að „að minnsta kosti einn einstaklingur“ sem var viðriðinn ránið gangi enn laus.
Beccuau sagði að grunuðu mennirnir sem eru í haldi virðast ekki tengjast skipulagðri glæpastarfsemi, þar sem fyrstu tveir grunuðu sem handteknir voru voru leigubílstjóri, 39 ára, og sendill og sorphirðir, 34 ára, frá norðurhluta úthverfa Parísar.
DNA-sýni þeirra fundust á vettvangi glæpsins og þeir „játuðu að hluta til aðild sína“ að ráninu, að sögn Beccuau. Atvinnulausi sorphirðirinn var handtekinn á Charles de Gaulle-flugvellinum í París þegar hann var að fara um borð í flug til Alsír, að sögn yfirvalda.
Hinir tveir grunuðu eru karlmaður, 37 ára, og sambýlismaður hans, 38 ára, einnig frá norðurhluta Parísar.
Apollo-salurinn í Louvre-safninu, þar sem stolnu skartgripirnir voru geymdir, hefur verið lokað síðan þjófnaðurinn átti sér stað, samkvæmt vefsíðu safnsins.