
Málið þykir nokkuð undarlegt en fyrr um morguninn hafði hlustandi hringt inn í útvarpsþáttinn Elliot in the Morning á útvarpsstöðinni DC101 og tilkynnt að hann hefði gengið fram á lík á þessum sama stað nokkru áður.
Maðurinn, sem kallaði sig Joseph, sagðist hafa verið úti að njóta náttúrunnar átján dögum áður þegar hann gekk fram á líkamsleifarnar. Þetta var á stað sem áður hýsti meðal annars tjöld fyrir heimilislausa einstaklinga.
„Þetta kann að hljóma ruglað en mig hefur alltaf langað til að lenda í einhverju svona,“ sagði maðurinn í þættinum.
Stjórnandi þáttarins spurði hvort hann væri búinn að hafa samband við lögreglu vegna málsins en því svaraði hann neitandi. „Gaur, hringdu í lögregluna,“ svaraði þáttastjórnandinn þá.
Ekki liggur fyrir hvort maðurinn hafi gert það, en lögregla fann umrætt lík síðar þennan sama dag. Talsmaður lögreglu sagði að upplýsingarnar sem fram komu í þættinum hefðu komið lögreglu á sporið. Lögregla hefur ekki gefið neitt upp um hver hinn látni var eða hvernig dauða hans bar að.