
Kona hefur viðurkennt að hafa ranglega sakað fyrrverandi eiginkonu sína um glæp. Átti þessi glæpur að hafa verið framinn um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni.
Konurnar eru báðar bandarískar en sú fyrrnefnda heitir Summer Worden og er fimmtug og fyrrum leyniþjónustufulltrúi í flughernum en fyrrverandi eiginkona hennar er geimfarinn Anne McClain.

CBS greinir frá málinu en þar kemur fram að í júlí 2019 tjáði Worden löggæsluyfirvöldum að á meðan McClain var um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni, fyrr á því ári, hafi hún farið inn á bankareikning hennar með ólögmætum hætti. McClain var um borð í stöðinni frá því í desember 2018 og fram í júní 2019. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem manneskja hefur verið sökuð um að hafa framið glæp í himingeimnum.

Rannsókn NASA, geimferðarstofnunar Bandaríkjanna, leiddi í ljós að um var ræða bankareikning sem þær höfðu báðar haft aðgang að þar til í janúar 2019. Worden hafði einnig síðan 2015 reglulega veitt McClain aðgang að bankareikningum sínum.
McClain sagði árið 2019 að þegar hún hefði farið inn á reikninginn um borð í geimstöðinni hafi það verið með leyfi Worden. Því neitaði sú síðarnefnda og lagði fram kvörtun bæði hjá fjármálaeftirliti Bandaríkjanna og NASA en í síðarnefndu kvörtuninni sakaði hún McClain um auðkennisþjófnað og að hafa komist inn á bankareikninginn á fölskum forsendum.
McClain neitaði þessu opinberlega og sagði að skilnaður hennar og Worden sem hefði tekið á sig mjög erfiða og sársaukafulla mynd væri nú því miður kominn í fjölmiðla.
Worden hefur nú játað að hafa logið að lögreglunni og mun á næsta ári hljóta dóm fyrir athæfi sitt á hún yfir höfði sér allt að fimm ára fangelsi og 250.000 dollara (31,9 milljónir íslenskra króna) sekt.
McClain er hins vegar enn í fullu fjöri sem geimfari og sneri fyrr á þessu ári aftur í Alþjóðlegu geimstöðina.