
Kona sem verið hefur meðlimur og starfað innan vinstri flokksins Sinn Féin á Írlandi hefur verið rekin úr flokknum. Hafði hún ekki greint flokkssystkinum sínum frá því að lögregla hafði framkvæmt húsleit á heimili konunnar og sambýlismanns hennar og í kjölfarið handtekið manninn vegna gruns um skipulagningu hryðjuverkaárásar. Er maðurinn sagður meðlimur í samtökum hægri öfgamanna sem höfðu í hyggju hryðjuverkaárásir á mosku og híbýli hælisleitenda.
Sinn Féin er vinstra megin á hinum pólitíska ás og starfar bæði í Lýðveldinu Írlandi og á Norður-Írlandi. Flokkurinn stefnir að sameinuðu Írlandi en fyrsti ráðherra Norður-Írlands, Michelle O´Neill er varaformaður flokksins. Flokkurinn er hins vegar í stjórnarandstöðu á Írlandi en er næststærsti flokkurinn á þingi.
Það hefur ekki komið fram í umfjöllun írskra og breskra fjölmiðla nákvæmlega hvaða stöðu og hlutverki hin ónafngreinda kona gegndi innan flokksins en hún er þó ekki þingmaður.
Tveir meintir samstarfsmenn mannsins hafa þegar verið leiddir fyrir dómara og úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna vörslu sprengiefna. Kom fram fyrir réttinum að mennirnir væru hluti af hópi hægri öfgamanna sem hefði hótað og lagt á ráðin um hryðjuverkaárásir á mosku í Galway á vesturströnd Írlands og hótel og miðstöðvar, sem hýsa hælisleitendur, víða um landið.
Konan sagði engum í flokknum frá húsleitinni eða handtöku sambýlismannsins og það var ekki síst það sem stuðlaði að brottrekstrinum.
Í yfirlýsingu frá flokknum var einnig minnt á að flokkurinn hefði verið skotmark hægri öfgamanna árum saman með til að mynda hótunum og aðsúgi að heimilum flokksmanna og skrifstofum flokksins.
Flokkurinn staðfesti einnig að konan og maður hennar hafi tvisvar verið gestir í þinghúsi Írlands á vegum þingmanns og starfsmanns flokksins.
Þingmaður Sinn Féin Matt McCarthy segir að málið hafi verið tekið föstum tökum og að ekki yrði liðið að neinir liðsmenn hans hefðu nokkurs konar tengsl við hægri öfgamenn. Hann hrósaði írsku lögreglunni fyrir að koma í veg fyrir árásirnar sem mennirnir voru að skipuleggja og opinberaði um leið að það hefði verið annar liðsmaður flokksins í sömu sýslu og konan býr í sem hefði látið vita af húsleitinni.