
Skjalaverði dómkirkju heilags Stefáns í Vínarborg, höfuðborg Austurríkis, brá verulega þegar hann opnaði nýlega pakka sem barst kirkjunni. Pakkinn reyndist innihalda hauskúpu en í raun var sendingin ekki glæpsamleg heldur yfirbót fyrir áratuga gamlan glæp og hauskúpan var aftur komin til síns heima.
BBC greinir frá en með hauskúpunni fylgdi bréf frá þýskum manni. Sagðist hann í bréfinu hafa heimsótt kirkjuna fyrir 60 árum og nýtt þá tækifærið og stolið hauskúpunni til að hafa sem minjagrip.
Hauskúpunni stal maðurinn í skoðunarferð um katakomburnar undir kirkjunni en þar er meðal annars að finna líkamsleifar og grafir 11.000 manna, sem eru mestmegnis frá 18.öld.
Sagðist maðurinn í bréfinu vilja finna innri frið og bæta fyrir misgjörðir sínar nú þegar hann væri farinn að nálgast endalok lífs síns.
Skjalavörðurinn, Franz Zehetner, segist hafa verið snortinn eftir að hafa lesið skýringarbréf mannsins og það sé gott þegar menn vilji bæta fyrir unggæðisleg og misráðin uppátæki. Maðurinn hafi líka varðveitt hauskúpuna vel í öll þessi ár.
Óljóst er af nákvæmlega hverjum hauskúpan er en henni hefur verið komið aftur fyrir í katakombunum