
Um klukkan 19 að kvöldi föstudagsins 24. október síðastliðins var ung kona á gangi í almenningsgarðinum Pildammsparken í miðborg Malmö í Svíþjóð. Unga konan hringdi í neyðarlínuna og sagðist telja að einhver væri að elta hana. Sambandið slitnaði en síðan þá hefur lögreglan rannsakað mál konunnar vegna gruns um að hún hafi orðið fyrir nauðgun þetta kvöld. Nú segir embætti ríkissaksóknari þar í landi hins vegar að grunur leiki á að konan hafi í tilkynningu sinni veitt falskar upplýsingar með fullyrðingum um að einhver virtist vera að elta hana.
Samvæmt fyrri fréttum Aftonbladet af málinu lék grunur á að unga konan hafi verið elt í 20 mínútur áður en loks var ráðist á hana. Lögreglan í Malmö óskaði opinberlega eftir upplýsingum frá fólki sem kynni að hafa verið statt eða á ferð í nágrenninu um þetta leyti umrætt kvöld og kynni að hafa séð eitthvað og einnig var óskað eftir myndefni, til að mynda úr myndavélum bifreiða.
Eftir að símtalið við konuna slitnaði voru lögreglubílar sendir á vettvang en lögreglan vissi ekki nákvæmlega hvar konan var stödd og þegar lögreglumenn fundu hana var árásin að sögn yfirstaðin og enginn maður sjáanlegur nálægt henni en konan var flutt á sjúkrahús. Talið var að auk kynferðisofbeldis hefði konan verið lamin. Blóð fannst á staðnum en samkvæmt heimildum Aftonbladet var það ekki úr ungu konunni.
Það þótti vekja sérstakan óhug að svona árás væri framin svo snemma kvölds og fullvissaði lögreglan íbúa Malmö um að engin ástæða væri til að óttast en mælt var þó með því að fólk væri vart um sig í almenningsgörðum borgarinnar eftir að skyggja tæki
Rannsókn lögreglu hefur staðið yfir síðan þá en ekki hefur tekist að beina sjónum að ákveðnum einstaklingi, sem mögulegum geranda, og beiðnir um upplýsingar frá almenningi hafa verið ítrekaðar. Nú hefur hins vegar embætti ríkissakóknara (s. Åklagarmyndigheten) sem hefur meiri aðkomu að lögreglurannsóknum en sambærilegt embætti á Íslandi, greint frá því að nýjar upplýsingar bendi til að í símtalinu til neyðarlínunnar þetta kvöld hafi konan, sem eins og áður segir greindi þá frá því að einhver væri að elta hana, ekki sagt satt og rétt frá. Hún sé til rannsóknar vegna gruns um falska tilkynningu.
Frekari upplýsingar eru ekki gefnar í tilkynningu embættisins og því liggur ekki fyrir hvort þetta þýði einnig að grunur leiki á að konan hafi alls ekki orðið fyrir neinu ofbeldi eða að grunur leiki á að hún hafi orðið fyrir ofbeldi en af einhverjum ástæðum veitt falskar upplýsingar um að einhver væri að elta hana.