„Við höfum sagt já við farsímum í lífi barna okkar í góðum tilgangi – svo þau geti hringt heim og átt samskipti við vini sína. En raunveruleikinn er sá að við höfum sleppt skrímsli lausu. Aldrei áður hafa svo mörg börn og ungmenni glímt við kvíða og þunglyndi,“ sagði forsætisráðherrann.
Hún sagði jafnframt að foreldrar myndu fá kost á að samþykkja notkun samfélagsmiðla hjá börnum sínum, að því gefnu að þau væru orðin 13 ára.
Mette sagði í ræðu sinni að mörg börn ættu í erfiðleikum með lestur og einbeitingu, á meðan önnur sæju efni á netinu sem þau ættu ekki að sjá. Hún vísaði í tölfræði sem sýndi að 60% drengja á aldrinum 11 til 19 ára sæju ekki einn einasta vin augliti til auglitis í frítíma sínum yfir heila viku.
Í umfjöllun CNN kemur þó fram að Mette hafi ekki gefið upp hvaða heimild liggur að baki þessum tölum.
„Haldið þið að þessi tala væri svona há ef ekki væri fyrir snjallsímann?“ spurði hún.
„Farsímar og samfélagsmiðlar eru að stela æsku barnanna okkar,“ bætti hún við og sagði að ný lög myndu tryggja að betur yrði hugað að börnum í Danmörku.
Samkvæmt CNN kemur frumvarpið í kjölfar þess að danska þingið samþykkti í lok september að banna farsíma í grunnskólum og frístundaheimilum, að tillögu svokallaðs vellíðunarráðs sem Frederiksen stofnaði árið 2023.
Danmörk er þó ekki eina þjóðin sem grípur til slíkra aðgerða. Í nóvember í fyrra samþykkti ástralska þingið frumvarp sem bannar börnum undir 16 ára að nota samfélagsmiðla. Þar er jafnframt kveðið á um að tæknifyrirtæki geri „eðlilegar ráðstafanir“ til að koma í veg fyrir að börn undir lögaldri fái aðgang að miðlunum. Brot gegn lögunum getur varðað sektum allt að 50 milljónum ástralskra dollara, sem samsvarar um fimm milljörðum króna.
Þá hafa Norðmenn einnig hafið vinnu sem miðar að því að banna börnum undir 15 ára aldri að nota samfélagsmiðla.