Hún kveðst bera þá von í brjósti að friðarplan Donalds Trump Bandaríkjaforseta leiði til þess að allir gíslar á Gaza verði leystir úr haldi. Herut Nimrodi segir í samtali við BBC News að hún sé „hrædd um það versta“ varðandi son sinn, Tamir, en vonar að hann tóri enn tveimur árum eftir að hann var numinn á brott.
Búist er við því að í dag haldi áfram óbeinar viðræður á milli Hamas og Ísraels um að binda endi á stríðið sem valdið hefur gríðarlegum hörmungum.
„Þau hafa reynt að ná samkomulagi í langan tíma, en það hefur ekki gengið upp. Að þessu sinni er tilfinningin önnur. Það er raunveruleg von um að þetta leysist,” segir Nimrodi við BBC. Hún segir sérstaklega mikilvægt að allir gíslarnir – bæði þeir sem eru á lífi og látnir – verði leystir úr haldi í fyrstu lotu áætlunarinnar.
„Það er brýnt að sleppa gíslunum– bæði þeim sem enn eru á lífi og þeim sem hafa látist. Við vitum ekki í hvaða ástandi lík þeirra eru. Við verðum að fá þá heim svo fjölskyldurnar geti fengið einhvers konar lokun. Jafnvel þær fjölskyldur sem fengu skilaboð um að ástvinir þeirra væru látnir, þær geta ekki sætt sig við það fyrr en þær fá einhverja sönnun,“ sagði hún enn fremur.
Tamir er einn af 47 gíslum sem voru numdir á brott 7. október og eru enn í Gaza. Talið er að um 20 þeirra séu enn á lífi þó það sé ekki vitað með vissu. Síðast sá hún son sinn í myndbandi af brottnáminu sem birtist á samfélagsmiðlum þann 7. október 2023.
„Yngsta dóttir mín – hún var fjórtán ára þá – kom öskrandi og sagði að hún hefði séð á Instagram þegar bróður hennar var rænt,“ rifjaði hún upp.
„Ég sá Tamir í náttfötum. Hann var berfættur. Hann var ekki með gleraugun sín – hann sér varla án þeirra. Hann var dauðhræddur,“ segir hún en á þessum tíma starfaði Tamir, þá átján ára, sem fræðslufulltrúi í ísraelska hernum. Síðan þá hefur hún ekki fengið neinar fregnir af syni sínum.
„Hann er eini Ísraelsmaðurinn sem engin vísbending er um – hvorki hvað varð um hann né hvar hann er,“ sagði hún. Hún trúir á að samkomulag náist og hvetur Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, til að gera það rétta – koma gíslunum heim og koma á friði.