
Andrés hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu og hefur fast verið sótt að bresku konungsfjölskyldunni vegna tengsla hans við kynferðisbrotamanninn Jeffrey Epstein.
Andrés reyndi lengi að fjarlægja sig frá Epstein en það varð bara til þess að hann festist dýpra í lygavefnum varðandi tengslin. Í yfirlýsingu frá konungsfjölskyldunni í gærkvöldi kom fram að Andrés verði hér eftir kynntur opinberlega með eftirnöfnum sínum, Mountbatten Windsor en prins-titillinn muni víkja.
Andrew Lownie, sérfræðingur í málefnum konungsfjölskyldunnar, segir í nýjum hlaðvarpsþætti Daily Mail, Deep Dive: The Fall of the House of York, að það hafi lengi verið ljóst að Andrési skorti allar siðferðislegar skorður.
Andrés var um tíma viðskiptasendiherra Bretlands og segir Lowmie að Andrés hafi nýtt ferðalög sem hann fór í til að „fylla eigin vasa“ og eltast við konur.
Lownie þessi hefur skrifað bækur um málefni konungsfjölskyldunnar, þar á meðal eina um fall Andrésar. Hann segir að árið 2001 hafi Karl, nú konungur Bretlands, varað við því að litli bróðir hans, Andrés, fengi sendiherrastöðuna af þeirri ástæðu að hann myndi eyða tíma sínum í að eltast við konur og spila golf.
Svo fór þó að Andrés fékk stöðuna og sagði Lowmie að varnaðarorð Karls hefðu ekki verið úr lausu lofti gripin.
„Hann notaði þetta embætti – sem skattgreiðendur borga fyrir – sem yfirskin til að fara í frí. Hann skráði alltaf niður tvær vikur af „einkatíma“ og þannig vorum við látin borga fyrir ferðirnar.“
Hann rifjaði svo upp eina eftirminnilega ferð til Taílands sem Andrés fór í.
„Þetta var ferð til að taka þátt í afmælishátíð konungsins og Andrés var fulltrúi Bretlands. Hann krafðist þess að dvelja á fimm stjörnu hóteli í stað sendiráðsins, eins og hann hafði reyndar alltaf gert. Í þeirri ferð lét hann senda til sín 40 vændiskonur á fjórum dögum.“
Þáttastjórnandinn Sarah Vine spurði Lowmie nánar út í þetta og svaraði hann því til að fjölmargir heimildarmenn gætu staðfest þetta, þar á meðal fréttamenn Reuters og meðlimir taílensku konungsfjölskyldunnar.
Lownie sagði að þótt sögurnar um kynlífsathafnirnar væru hneykslanlegar, væri hans helsta áhyggjuefni hvernig Andrew hefði notað embætti sitt sem viðskiptasendiherra til að þjóna eigin viðskiptahagsmunum.
Hvatti hann Þjóðskjalasafn Bretlands til að birta skjöl sem tengjast tíma Andrésar í embættinu og sagði að „þöggunarsamsæri“ ríkti um málið.