
Þann 14. desember 2019 komu bræðurnir Aleksandser og Tyler Todt fram á hátíðartónleikum í skólanum sínum. Þeir voru báðir afreksmenn í tónlist þrátt fyrir ungan aldur og þetta kvöld hlaut Aleksander, 13 ára, viðurkenningu fyrir frammistöðu sína á píanó og fiðlu og Tyler, 11 ára, hlaut viðurkenningu fyrir frammistöðu sína á píanó og gítar.
Myndir sem teknar voru þetta kvöld sýna bræðurna brosandi þar sem þeir halda á viðurkenningarskírteinum sínum og verðlaunapeningum á meðan þeir sitja fyrir með tónlistarkennara sínum.
Þetta var í síðasta skipti sem drengirnir tveir sáust á lífi.
Mánuði síðar 13. janúar 2020 fóru yfirvöld inn í frístundahús fjölskyldunnar í Flórída í hverfinu Celebration, sem Disney hefur þróað, og fundu múmíukennd lík bræðranna á dýnu í svefnherbergi foreldra þeirra.
Lík móður þeirra, Megan Todt, 42 ára, fannst liggjandi í hjónarúmi sínu og systir þeirra, Zoe, fjögurra ára, fannst við fótskör rúmsins undir fótum móður sinnar.
Í húsinu var einnig fjölskyldufaðirinn, Anthony Todt, 50 ára, sem var á lífi.

People greinir frá málinu og í viðtölum sem miðillinn hefur undir höndum kemur fram að þennan dag hafi staðið til að handtaka Anthony fyrir svik í heilbrigðisþjónust. Einhverjar áhyggjur hefðu verið af því hvort hann væri í Flórída eða Connecticut, þar sem hann starfaði sem sjúkraþjálfari.
Þrír lögreglumenn höfðu fylgst með húsinu í nokkrar klukkustundir þennan dag þegar þeir sáu Todt loksins ganga út á veröndina.
Áætlun var gerð um að handtaka hann fyrir utan húsið en hann fór aftur inn áður en hægt var að framkvæma þá áætlun og einn lögreglumannanna greindi frá að Todt ætti erfitt með að ganga og fengi krampa við hvert skref. Lögreglumönnunum var síðan gefið leyfi til að fara inn í húsið, án þess að vita af þeim hryllingi sem þeir voru að fara að verða vitni að.
Lögreglumaðurinn Melissa O’Neal sagði að þeir hefðu bankað á dyrnar og að lokum opnað þær þegar enginn svaraði. Lögreglumennirnir heyrðu muldur um leið og þeir komu inn í húsið, sem „hljómaði eins og það væri efst uppi við stigann,“ sagði O’Neal.
Allir þrír lögreglumennirnir litu upp og sáu Todt, aðeins klæddan í skyrtu og nærbuxur, horfa niður á þá af annarri hæð.
„Hann var enn að muldra og þurfti mikla aðstoð við að komast niður, en sagði að það mætti ekki snerta hann því hann myndi detta,“ sagði O’Neal um Todt.
Það tók hann smá tíma að komast niður stigann og þegar hann gerði það sögðu lögreglumennirnir að þeir hefðu strax spurt hvar kona hans og þrjú börn væru, miðað við ástand heimilisins og sterka lykt.
„Hann sagði að Megan væri sofandi uppi og hann kallaði líka á hana, eins og hún væri á lífi,“ sagði O’Neal. „Við spurðum hvar börnin væru? Og hann sagði:’Ég veit það ekki, ég man ekki hvort þau fóru í gistingu í gærkvöldi.“

Lögreglumaðurinn Michael Phelps beið hjá Todt á meðan O’Neal og lögreglumaðurinn Jim Nguyen fóru að finna Megan og börnin.
„Við fórum upp stigann til að athuga hvort Megan og börnin væru til staðar því við höfðum líka kallað eftir henni og augljóslega var enginn að svara,“ sagði O’Neal.
Þau tóku eftir því að hurðin að hjónaherberginu var opin og áttuðu sig stuttu síðar á því að það voru mörg lík í herberginu.
„Ég gat séð fætur og það var hægt að sjá að þetta var einhver sem var látinn. Það var hægt að sjá afturendann á öðrum manni,“ sagði O’Neal.
Stuttu síðar höfðu lögreglumennirnir borið kennsl á þrjá einstaklinga í herberginu sem Megan, Aleksander og Tyler, en ekkert merki var um Zoe.
Lögreglumenn leituðu um allt húsið áður en þeir sneru aftur inn í hjónaherbergið.
„Við fórum aftur inn í hjónaherbergið og hún er svo lítil. Hún er bara svona þriggja eða fjögurra ára. Það er annað lítið teppi við fótskör rúmsins…,“ sagði O’Neal.
Lík Zoe var svo illa rotið að lögreglumenn gátu ekki séð hana við fyrstu leit sína í herberginu.
Líkin voru öll „svört eins og leður,“ sagði O’Neal, sem benti einnig á að hundur fjölskyldunnar, Breezy, væri meðal fórnarlambanna.
Todt var handtekinn en sagði ekkert, sem neyddi yfirvöld til að bíða eftir skýrslu réttarlæknis til að komast að því hvernig hann myrti fjölskyldu sína.
Réttarlæknir Orange-sýslu birti þessar skýrslur tveimur mánuðum síðar og komst að þeirri niðurstöðu að Todt hefði gefið konu sinni og sonum lyf með Benadryl og síðan stungið öll þrjú.
Aleksander og Tyler voru stungnir eftir andlátið, samkvæmt krufningu, sem einnig sagði að börnin þrjú hefðu líklega verið kyrkt eða kæfð til bana. Líkin voru of rotin til að vita með vissu nákvæmlega hvernig Todt myrti börnin sín.
Todt játaði að lokum verknaðinn og sagðist hafa verið að bjarga fjölskyldu sinni frá heimsendi. Hann játaði síðan sök í fjórum morðákærum og kenndi konu sinni um.
Í bréfi sem hann skrifaði úr fangaklefa sínum og síðar var tekið sem sönnunargögn af saksóknurum, hélt Todt því fram að Megan hefði drepið börnin með því að gefa þeim „Benadryl-búðingsköku“ þegar hann var ekki heima, og síðan hefði hún tekið eigið líf með því að drekka flösku af Benadryl og stinga sig í magann þegar hann kom heim.
Todt sagði að Megan hefði gert þetta vegna nýfundins trúarákafa sem hefði fengið hana til að trúa því að hún væri að bjarga fjölskyldu sinni frá heimsendi. Hann hélt því einnig fram að hann hefði upphaflega játað fyrir yfirvöldum vegna þess að hann hefði verið að reyna að hylma yfir gjörðir konu sinnar.
Vísbendingar eru hins vegar um að fjárhagslegt hrun Todts hafi verið hvatinn að grimmilegum morðunum.
Í dómsskjölum þar sem farið var fram á að hann yrði lýstur gjaldþrota svo hægt væri að skipa honum opinberan verjanda, hélt Todt því fram að hann ætti 1.500 dali, en skuldirnar væru upp á 200 þúsund dali.
Ári fyrir morðin hafði honum verið vikið út af einni af skrifstofum sínum í Connecticutog í nóvember 2019 frétti hann að heilbrigðis- og mannþjónusturáðuneyti Bandaríkjanna (e. U.S. Department of Health and Human Services) hefði verið að rannsaka hann frá apríl sama ar eftir að hafa fundið vísbendingar um að hann hefði lagt fram sviksamlegar tryggingarkröfur.
Alríkislögreglumenn sögðu að Todt hefði upplýst þá á þeim tíma að eiginkona hans væri ekki meðvituð um rannsóknina og fullvissað þá um að hann myndi vinna með þeim í rannsókn þeirra. Þegar þau heyrðu ekki frá honum aftur tóku þau ákvörðun um að taka hann í gæsluvarðhald í janúar 2020.
Hjónin höfðu einnig fengið tilkynningu um útburð í desember 2019 fyrir húsnæði sem þau keyptu í sama hverfi, sem er staðsett innan við tveimur kílómetrum frá Walt Disney World.
Kviðdómur dæmdi Todt að lokum sekan um fjögur manndráp af ásettu ráði og grimmd gegn dýrum. Hann afplánar nú lífstíðardóm fyrir morðin