Stúlkurnar; Amy Ayers, 13 ára, Eliza Thomas, 17 ára, og systurnar Jennifer og Sarah Harbison, 17 og 15 ára, fundust bundnar á höndum og fótum í versluninni I Can‘t Believe It‘s Yogurt. Þær höfðu allar verið skotnar í höfuðið og á vettvangi voru merki um að þær hefðu verið beittar kynferðislegu ofbeldi.
Eðli málsins samkvæmt vakti morðið mikinn óhug í samfélaginu og voru tveir menn handteknir á sínum tíma grunaðir um verknaðinn. Annar þeirra var sendur á dauðadeild um tíma áður en dómurinn yfir þeim var ógiltur árið 2009.
Lögreglan í Austin segir að DNA-rannsókn hafi leitt í ljós að sökudólgurinn í morðinu árið 1991 hafi að líkindum verið maður að nafni Robert Eugene Brashers. Robert þessi féll fyrir eigin hendi árið 1999 þegar lögreglumenn hugðust handtaka hann vegna gruns um morð og nauðganir í Texas.
Daniel Jackson, fulltrúi lögreglunnar í Austin sem fer með rannsókn gamalla og óupplýstra sakamála, segir að DNA-sýni undir fingurnöglum Amy hafi reynst lykillinn í lausn málsins. Hún hafi klórað frá sér þegar hún reyndi að verjast árásarmanninum og lífsýnið komi heim og saman við lífssýni úr Robert.
Robert þessi virðist ekki hafa verið merkilegur pappír því hann var dæmdur í 12 ára fangelsi í Flórída árið 1985 fyrir að skjóta konu sem vildi ekki sofa hjá honum. Honum var veitt reynslulausn árið 1989. Árið 2018 tilkynntu lögregluyfirvöld í Missouri að DNA-sýni tengdu hann við morð á konu árið 1990 og skotárás á mæðgur árið 1990. Þá er hann einnig grunaður um að hafa nauðgað 14 ára stúlku í Tennessee árið 1997.
Það mun þó aldrei koma til þess að Robert þurfi að svara fyrir glæpina þar sem hann svipti sig lífi sem fyrr segir árið 1999, fertugur að aldri.