Um er að ræða meðlimi hinnar alræmdu Ming-fjölskyldu sem voru fundnir sekir um að hafa stundað skipulagða glæpastarfsemi á svæðinu.
Alls voru 39 dæmdir í málinu og hlutu ellefu lífstíðarfangelsi auk þeirra ellefu sem hlutu dauðadóm. Hinir fengu fangelsisdóm frá 5 árum til 24 ára.
Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu.
Ming-fjölskyldan er sögð hafa unnið fyrir eina af fjórum ættum sem fóru með völd í landamærabænum Laukkai í Mjanmar, skammt frá landamærum Kína. Var bænum breytt í einskonar miðstöð fjárhættuspila og eiturlyfja. Mátti þar einnig finna tölvuver sem nýtt voru undir ýmsa svikastarfsemi.
Talið er að Ming-fjölskyldan hafi haft gríðarlega fjármuni upp úr krafsinu frá árinu 2015, eða 10 milljarða júana sem jafngildir um 150 milljörðum króna.
Yfirvöld í Mjanmar fóru í rassíu árið 2023 og voru meðlimir fjölskyldunnar framseldir til Kína í kjölfarið.