Rotnandi líkamsleifar unglingsstúlku fundust í yfirgefinni Teslu-bifreið í eigu söngvarans D4vd, sem heitir réttu nafni David Anthony Burke, mánudaginn 8. september síðastliðinn. Lík stúlkunnar var vafið inn í plast í læstu skotti bifreiðarinnar, en bifreiðin var skilin eftir í steikjandi Kaliforníu-sólinni svo dögum skipti. Mikinn óþef lagði frá bifreiðinni sem varð til þess að vegfarendur höfðu samband við lögreglu og lýstu yfir áhyggjum. Nokkrum dögum síðar greindi lögregla frá því að hún hefði borið kennsl á líkið. Hin látna hét Celeste Rivas og var fædd árið 2010. Rivas var eftirlýst eftir að hún lét sig hverfa úr foreldrahúsum á síðasta ári.
Sjá einnig: Kennsl borin á rotnandi lík í yfirgefinni Teslu söngvarans – Ferilinn hefur borið hnekki
Talsmenn söngvarans gáfu fljótt út að söngvarinn ætlaði að veita lögreglu fullt samstarf við rannsóknina, en hann þótti ekki vera sakborningur í málinu. Söngvarinn hafði ekki tilkynnt um að bifreiðinni hefði verið stolið af honum en samkvæmt fyrstu fréttum mátti ætla að hann væri ótengdur málinu. Síðan fóru fjölmiðlar að grafa upp sannleikann. Söngvarinn og stúlkan þekktust vissulega. Þau kynntust fyrir nokkrum árum síðar og þykir líklegt að þau hafi átt í ástarsambandi og að Celeste hafi búið með honum eftir að hún hljópst að heiman. Celeste hefði átt að fagna 15 ára afmæli sínu þann 9. september, degi eftir að lík hennar fannst. Samkvæmt yfirvöldum liggur fyrir að hún hafði þá verið látinn í nokkurn tíma.
Foreldrar stúlkunnar sáu hana seinast þann 4. maí árið 2024. Samkvæmt bróður Celeste fór hún þá í bíó með D4vd en skilaði sér aldrei heim aftur. Tveir heimildarmenn DailyMail, sem munu hafa þekkt vel til stúlkunnar, segja að söngvarinn og Celeste hafi verið par og því hafi verið haldið leyndu út af ungum aldri hennar. Þó að Celeste hafi ekkert talað við foreldra sína síðan í fyrra hélt hún áfram að hafa samband við vini sína. Samkvæmt þeim hættu þeir þó að heyra frá henni um mánaðarmótin júlí/ágúst á þessu ári.
Neama Rahmani, fyrrum saksóknari fyrir bandaríska dómsmálaráðuneytið, segir í samtali við DailyMail að sönnunargögnin gegn söngvaranum séu sláandi og furðar sig á því að D4vd gangi enn laus.
„Þegar þeir finna lík í bílnum þínum er það ekki ávísun á gott. Og þegar líkið hefur verið aflimað er það enn vera – og það er án þess að bæta við öllu hinu sem við höfum frétt um málið. Fyrir það allra minnsta ætti að ákæra hann fyrir samræmi við ólögráða barn, mannrán og mansal, það er að segja ef hún var vissulega með honum allan þennan tíma og ef samband þeirra var kynferðislegt. Það er bara virkilega sláandi að enginn hafi verið handtekinn, en ég reikna með að úr því verði bætt á næstu dögum. Það er bara tímaspursmál.“
Rahmani tekur þó fram að lögreglan í Los Angeles sé þekkt fyrir að vinna á hraða snigilsins og þó að það sé sláandi að söngvarinn sé ekki í haldi þá komi það í raun ekki á óvart. D4vd hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið og hefur neitað viðtalsbeiðnum frá fjölmiðlum. Hann gerði garðinn fyrst frægan á TikTok árið 2022 og kom fyrst fram í sjónvarpi í nóvember 2023 í þætti Jimmy Kimmels. Söngvarinn var þá 18 ára gamall. DailyMail sendi blaðamenn og ljósmyndara að heimili söngvarans. Þá var verið að rýma húsið og flutningamenn að bera eigur söngvarans út í sendibifreið. Eins sást til tveggja grímuklæddra manna fyrir utan eignina en miðillinn ályktar að um öryggisverði sé að ræða.