Mikið uppnám og hræðsla greip um sig fyrir skömmu í flugvél flugfélagsins Ryanair á leið frá Mílanó til London. Ástæðan var sú að tveir farþegar byrjuðu, fljótlega eftir að vélin var komin í fulla flughæð, að rífa vegabréf sín í sundur og éta þau.
Daily Mirror greinir frá þessu en nákvæm dagsetning kemur ekki fram. Annar farþegi sem var um borð var vitni að þessu uppátæki. Vitnið var á leið heim til Bretlands með hópi vina sinna. Það segir að eftir að vélin hafi verið á lofti í um 15-20 mínútur hafi hún náð fullri flughæð og slökkt hafi verið á merkinu um að hafa sætisbeltin spennt. Fljótlega í kjölfarið hafi mennirnir byrjað að rífa vegabréfin í sig.
Vitnið fullyrðir að mikill æsingur hafi breiðst út um flugvélina á leifturhraða. Annar farþeganna tveggja hætti þó fljótlega að éta vegabréfið og læsti sig inni á salerni til að sturta því niður. Flugfreyja bankaði fast á dyrnar og krafðist þess að hann myndi opna en því neitaði farþeginn. Vitnið segir að þá hafi spennan aukist enn meira.
Yfirflugfreyjan hafi síðan tilkynnt farþegum hreinskilnislega hvað væri að gerast og þá hafi óttinn magnast enn frekar. Flugvélinni var síðan lent í skyndi í París. Vitnið segist aldrei hafa orðið eins hrætt á ævinni. Farþegarnir tveir voru í kjölfarið handteknir af frönsku lögreglunni. Hvort þeir hafi viljað eyðileggja vegabréfin til að auðvelda sér hælisumsókn í Bretlandi eða hvort einhver annar tilgangur var með athæfinu er ekki vitað á þessari stundu.
Áður en haldið var aftur til Bretlands þurfti að rannsaka farangur farþega upp á nýtt. Vitnið hrósar starfsfólki Ryanair og segir það hafa höndlað þetta furðulega atvik afar vel. Boðið hafi verið upp á ókeypis drykki skömmu fyrir lendingu í London en Ryanair er annars ekkert sérstaklega þekkt fyrir að bjóða farþegum sínum eitthvað án endurgjalds. Þarna var þó líklega tilefni til að breyta út af vananum.