Lögregla í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum er nú með til rannsóknar mál nokkuð bíræfins svikahrapps. Um er að ræða konu sem tókst að þykjast vera hjúkrunarfræðingur í fimm ár, víða um landið. Notaði hún þessa stöðu sína meðal annars til að stela lyfjum og auðkennum.
Í liðinni viku fór ríkislögregla Pennsylvaníu fram á að einkafyrirtæki á sviði heilbrigðisþjónustu skoðuðu starfsmannaskrár sínar en konan notaði að minnsta kosti 10 mismunandi nöfn til að fá störf sem hjúkrunarfræðingur í hinum ýmsu ríkjum Bandaríkjanna. Með þessu vonast lögreglan til að fá úr því skorið hversu víða konan kom við. Raunverulegt nafn konunnar er Shannon Nicole Womack en hún er 39 ára gömul. Í átta þessara tilfella breytti hún eingöngu um eftirnafn en í tveimur breytti hún bæði um millinafn og eftirnafn. Hins vegar notaði hún alltaf sitt raunverulega fornafn.
Lögreglan segir að í Pennsylvaníu hafi Womack fyrst og fremst fengið störf sem hjúkrunarfræðingur á hjúkrunarheimilum með því að koma fram undir þessum mismunandi nöfnum. Hún á yfir höfði sér ákæru fyrir fjölda brota til dæmis að hafa stefnt velferð vistmanna í hættu, ólöglega notkun á tölvu, auðkennisþjófnaði, falsanir og fjölda þjófnaða.
Störfin fékk Womack með því að framvísa meðal annars meðmælabréfum með fölsuðum undirskriftum og að stofna falskt fyrirtæki um „þjónustu“ sína. Hún var aðeins í skamman tíma á hverjum vinnustað.
Upp komst um svikahrinu Womack í vor þegar bifreið hennar var stöðvuð við hefðbundið umferðareftirlit í Pennsylvaníu. Framvísaði hún fölsuðum skilríkjum og skráningarvottorð bifreiðarinnar reyndist útrunnið. Í kjölfarið fundust í bifreiðinni fjöldi skilríkja, lyfseðilsskyld lyf frá hjúkrunarheimilum, þar sem hún hafði starfað, og ávísað hafði verið á vistmenn og ýmis konar skjöl sem sum hver voru læknisfræðilegs eðlis.
Upp úr krafsinu kom að lýst hafði verið eftir Womack, fyrir að þykjast vera hjúkrunarfræðingur, í alls sex ríkjum Bandaríkjanna, auk Pennsylvaníu voru þetta Connecticut, New Jersey, Indiana, Tennessee og Georgía.
Hún er einnig sökuð um að hafa stolið auðkennum fjögurra raunverulegra heilbrigðisstarfsmanna til að fá störf sem hjúkrunarfræðingur. Womack hefur ekki starfsleyfi sem hjúkrunarfræðingur eða heilbrigðisstarfsmaður af öðru tagi í neinu ríkja Bandaríkjanna.
Þegar hún var handtekin höfðu hins vegar nokkrir starfsmenn í heilbrigðisgeiranum varað við henni.
Til að auðvelda sér að fá ný störf gekk Womack svo langt að þykjast vera með ritara, sem átti að starfa hjá hinu falska fyrirtæki hennar. Þau sem hringdu í fyrirtækið töldu sig vera að tala við ritara Womack en voru allan tímann að tala við hana sjálfa.
Á sumum hjúkrunarheimilum var henni falið að dreifa lyfjum til vistmanna sem ávísað hafði verið á þá en lyfin skiluðu sér aldrei til þeirra. Á einu heimili stal hún til að mynda 120 pillum af oxýkódón sem ávísað hafði verið á vistmennina til að lina mikla verki þeirra. Hún starfaði aðeins á einni vakt á heimilinu en eftir það setti yfirstjórn þess hana á sérstakan lista yfir fólk sem varað er við að ráða sem heilbrigðistarfsmenn.
Að sögn yfirvalda í Pennsylvaníu hóf Womack að þykjast vera hjúkrunarfræðingur í covid-heimsfaraldrinum, sem hófst árið 2020, en þá var eftirspurn eftir fólki úr þeirri stétt afar mikil. Þá mun hafa verið mjög algengt að heilbrigðisstofnanir sneru sér til ýmissa fyrirtækja sem sjá um að útvega heilbrigðisstarfsfólk en Womack mun hafa með fölsunum sínum þóst hafa meðmæli frá slíkum fyrirtækjum og fór lengst af í gegnum alla rétta ferla í þeim efnum sem auðveldaði henni að halda svikamyllunni gangandi svo lengi.
Saksóknari segir það sérstaklega viðurstyggilegt að svíkja eldra fólk með þessum hætti og nýta sér hversu berskjaldaður þessi hópur geti verið.