Fyrrum Fox-fréttamaðurinn Tucker Carlson þykir vægast sagt hægrisinnaður og hefur jafnan verið lukkulegur með forsetann sinn, Donald Trump – en ekki alltaf. Hann fékk góðan gest til sín í þáttinn The Tucker Carlson Show, fyrrum sjóhermanninn Shawn Ryan, en sá síðarnefndi sagðist vera að missa trúna á ríkisstjórnina.
Vissulega hefði ríkisstjórnin ráðist í þarfar aðgerðir, svo sem að berjast gegn svokölluðum DEI-aðgerðum á vinnumarkaði, sem snúast um fjölbreyttni, jafnrétti og inngildingu, og svo hert tökin á landamærunum.
Hins vegar hefði Trump lofað því að birta öll gögn í máli níðingsins Jeffrey Epstein, en það loforð hafi forsetinn ekki efnt. Eins hafði Ryan áhyggjur af viðskiptum forsetans í Mið-Austurlöndum. Fjölskylda Trump á í umfangsmiklum viðskiptum við Mið-Austurlönd en sonur forsetans, Eric Trump, hefur upplýst að til standi að reisa 80 hæða háhýsi, eða Trump-turn, í Dubai. Eins stendur til að reisa golfvöll í Katar, annan Trump-turn í Sádí-Arabíu, og Trump-hótel og gólfvöll í Óman.
Ryan velti því fyrir sér hvort að þessi viðskipti tengdust því eitthvað að konungsfjölskyldan í Katar ætlar nú að gefa bandarískum yfirvöldum lúxusþotu. Hann spurði sjónvarpsmanninn hvort hann vissi það.
„Nei, ég veit það ekki. Ég hef ekki þénað krónu í Mið-Austurlöndum. Ekki eina,“ sagði Carlson. Ryan bætti við að sjónvarpsmaðurinn ætti að þekkja ágætlega til en því mótmælti Carlson sem sagðist bara hafa heimsótt Mið-Austurlönd sem ferðamaður. Ryan tók fram að þessi viðskipti forsetans og fjölskyldu hans væru áhyggjuefni.
Þá kom Carlson áhorfendum sínum á óvart með því að taka undir með fyrrum hermanninum: „Já, þetta virðist vera spilling.“