Frá því í kosningabaráttunni og þar til fyrir skömmu komst Donald Trump Bandaríkjaforseti vart í gegnum daginn án þess að minnast á uppáhalds auðkýfinginn sinn, Elon Musk. Musk slóst í för með Trump fyrir forsetakosningarnar í nóvember og fylgdi honum í Hvíta húsið þar sem ríkasta manni heims var falið það vandasama verkefni að skera verulega niður í opinberum rekstri. Loforð Musk voru stór. Hann lofaði að spara hinu opinbera billjónir Bandaríkjadala og það á mettíma.
Eitthvað virðist auðkýfingurinn þó hafa vanmetið tregðuna í ríkisbákninu því fljótlega lækkaði hann loforðið í 150 milljarða bandaríkjadala. Niðurskurðardeildin hans, DOGE, segist hafa náð að spara ríkinu um 160 milljarða, en fjölmiðlar og fleiri hafa bent á að DOGE hafi aðeins fært sönnur fyrir um 60 milljörðum en BBC greindi frá því í apríl að miðað við birtar kvittanir DOGE sé talan nær 32,5 milljörðum.
Á sama tíma fór allt í steik hjá bílaframleiðslunni Teslu, fyrirtæki Musk, og hefur auðkýfingurinn því ákveðið að verja minna púðri í pólitíkina og meira í sinn eigin rekstur. Eins voru aðgerðir DOGE óvinsælar og skoðanakannanir hafa sýnt að meirihluti almennings í Bandaríkjunum hefur litla þolinmæði fyrir því að ríkasti maður heims sé að hræra í þeirra málum.
Politico greinir nú frá því að í febrúar og mars hafi Trump nefnt Musk að meðaltali fjórum sinnum á dag á samfélagsmiðlum sínum. Þetta hafi svo breyst í apríl og forsetinn þögull sem gröfinn um auðkýfinginn sem ætlaði að skera niður báknið með keðjusög.
Svipað er að eiga sér stað hjá Musk. Þar til snemma í apríl hafði Musk nefnt í færslum á samfélagsmiðlum nánast upp á hvern einasta dag. En nú virðist Musk hafa öðrum hnöppum að hneppa.
Heimildarmaður Politoco segir að Musk sé búinn að vera í stjórnmálum. „Hann er búinn að vera, hann er farinn. Hann kemur hryllilega út í könnunum. Fólkið hatar hann. Hann fór til Wisconsins og hélt að hann gæti keypt þar atkvæði, hann var með ostahatt á höfðinu, hegðaði sér eins og 9 ára barn. Þetta virkar ekki. Þetta misbýður fólki.“
Heimildarmaðurinn vísar þarna til þess þegar Wisconsin kaus nýjan dómara í áfrýjunardómstól sinn, en Musk eyddi miklum peningi í þá baráttu þar sem hann studdi við dómaraefni sem er hliðhollt Trump. Honum var þó ekki kápan úr því klæðinu heldur þvert á móti virtist hann sannfæra Wisconsin um að velja dómara sem samþykkir ekki bein og vafasöm afskipti af lýðræðislegum kosningum. Musk vakti á þessum tíma athygli fyrir að koma fram á kosningafundi með ostahatt.
Eins er Musk ekki lengur nefndur á nafn á opinberum samfélagsmiðlum forsetaembættisins og helstu ráðgjafar Trump eru líka hættir að tala um auðkýfinginn.
Politico tekur eins fram að Trump er hættur að nota nafn Musk þegar hann sendir skilaboð til stuðningsmanna til að óska eftir fjárstuðningi.
Talsmaður þingkosninganefndar Demókrata, Viet Shelton, sagði fyrir mánuði síðan að Demókratar muni vinna miðkjörtímabilskosningarnar þar sem Repúblikanar séu að verja of miklu púðri í að lækka skatta fyrir þá ríkustu.
„Elon er, og verður ávallt, auðþekkjanleg birtingarmynd þeirrar staðreyndar að þingmenn Repúblikana vinna ekki fyrir fólkið í Bandaríkjunum heldur fyrir milljarðamæringana.“
Þingmenn demókrata hafa tjáð sig með svipuðum hætti og bent á það að Musk yrði forsetanum fjötur um fót. Það sé ekki vinsælt meðal almennings, sérstaklega þeirra sem reiða sig á fjárstuðning frá hinu opinbera, að sjá ríkasta mann heims með ostahatt á höfðinu og haldandi á keðjusög skera niður framfærsluna þeirra.