fbpx
Mánudagur 19.maí 2025
Pressan

Afbóka ferðir eftir spádóm í teiknimyndasögu um gríðarlegar hamfarir

Pressan
Mánudaginn 19. maí 2025 17:30

Flóðbylgja skellur á japönskum bæ, í mars 2011, eftir gríðarlega stóran jarðskjálfta. Í teiknimyndasögu varð spáð fyrir um skjálftann og í nýrri útgáfu sögunnar er spáð enn öflugri skjálfta í júlí næstkomandi. Mynd - Wikimedia Commons-CC BY 4.0

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nokkuð hefur verið um að fólk sem hugði á ferðalög til Japan hafi hætt við vegna spádóms í japanskri manga-teiknimyndasögu um að mikill jarðskjálfti muni ríða yfir landið í sumar. Raunar hafði fyrri hluti sögunnar spáð fyrir um að stór skjálfti myndi dynja yfir í mars 2011 sem varð síðan að veruleika en samkvæmt nýja spádómnum mun skjálftinn í ár hafa enn meiri afleiðingar en skjálftinn 2011 sem kostaði um 20.000 mannslíf.

CNN fjallar um þessa spádóma en hafa ber í huga að Japan er á mjög virku jarðskjálftasvæði og jarðskjálftafræðingar segja nánast ómögulegt að spá fyrir um hvenær jarðskjálftar verði. Það hefur þó ekki orðið til þess að draga úr trú á gildi spádóma þessarar teiknimyndasögu.

Sagan ber titilinn Framtíðin sem ég sá (e. The Future I Saw) og er eftir listakonuna Ryo Tatsuki. Hún kom fyrst út 1999 og í sögunni var þá spáð að stór jarðskjálfti myndi ríða yfir í mars 2011.

Þann 11. mars 2011 skall sannkallaður hamfaraskjálfti á Japan, einn sá stærsti í sögunni. Skjálftinn var 9.1 að stærð og um 20.000 manns létu lífið ekki síst eftir skjálftinn kom af stað háum flóðbylgjum. Kjarnorkuverið í Fukushima var svo illa leikið eftir skjálftann að afleiðingarnar urðu versta kjarnorkuslys heimsins síðan í Chernobyl 1986.

Árið 2021 kom síðan út ítarlegri útgáfa af myndasögunni en Tatsuki sagði um að ræða heildar- og þar með lokaútgáfu sögunnar. Í þessari útgáfu er því spáð að annar stór skjáfti ríði yfir í júlí næstkomandi.

Miðlar

Spádómurinn hefur einkum ýtt undir afbókanir frá Japönum sem ætluðu sér að ferðast innalands og fólki frá öðrum Asíuríkjum sem hafði stefnt á ferðir til Japan.

Miðlar hafa einnig varpað fram sams konar spádómum sem hefur ýtt enn frekar undir æsinginn.

Ferðaskrifstofa í Hong Kong segir bókunum í ferðir á hennar vegum til Japans um páskaleytið í ár hafa fækkað um helming frá sama tíma í fyrra og búist sé við enn frekari fækkunum fram í júlí.

Það er aðallega fólk frá Kína og Hong-Kong sem er farið að forðast ferðir til Japan en Kínverjar hafa verið næst fjölmennastir í hópi ferðamanna til landsins en fólk frá Hong-Kong skipar fjórða sætið.

Óttinn er þó einnig farinn að breiðast út á samfélagsmiðlum í Víetnam og Thailandi.

Viðvörun

Það hefur ekki sefað óttann heldur að yfirvöld í Japan tilkynntu í upphafi ársins að 80 prósent líkur væru á mjög stórum skjálfta á næstu 30 árum. Sumir jarðskjálftafræðingar hafa hins vegar gagnrýnt þetta og sagt ekki hægt að spá svona nákvæmlega fyrir um jarðskjálfta.

Aðdáendur Ryo Tatsuki segja hana gædda spádómsgáfu. Hún hefur teiknað útgáfu af sjálfri sér inn í sögur sínar þar sem hún varpar fram spádómum sem hún segist hafa fengið úr draumum sínum. Gagnrýnendur segja hins vegar spádómana svo óljósa að það sé ekki hægt að taka þá alvarlega en eftir að spádómurinn um skjálfta 2011 varð að veruleika fór frægð hennar að berast út fyrir Japan og til sumra nágrannaríkjanna í Asíu.

Í nýju útgáfunni af Framtíðin sem ég sá segir að stór skjálfti ríði yfir 5. júlí næstkomandi og að flóðbylgjurnar verði þrisvar sinnum hærri en í skjálftanum 2011.

Aðspurð segist Tatsuki vera ánægð með að verk hennar verði til þess að fólk sé meira undirbúið fyrir hamfarir en segir að fólk eigi ekki að sannfærast um of af spádómum hennar og hvetur það til fylgja ráðleggingum sérfræðinga.

Ekki algilt

Þessi mikli ótti við ferðir til Japans sem hefur breiðst út er þó alls ekki algildur. Þeir sem hafa hætt við segjast vilja forðast möguleg vandræði vegna hugsanlegs skjálfta en ferðamenn sem haldið hafa áætlunum sínum til streitu segjast meðal annars treysta því að japönsk yfirvöld bregðist við af festu ef jarðskjálfti ríður yfir á meðan ferðum þeirra stendur yfir. Raunar er það svo að ferðamenn í Japan hafa aldrei verið fleiri en í ár og það á líka við um fólk frá Kína og Hong-Kong sem hefur eins og áður segir einna helst orðið smeykt við ferðir til Japan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Segir að hugsanlega sé heimsbyggðin búin að glata hjarðónæminu gegn mislingum

Segir að hugsanlega sé heimsbyggðin búin að glata hjarðónæminu gegn mislingum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þess vegna ættirðu að borða fleiri egg

Þess vegna ættirðu að borða fleiri egg
Pressan
Fyrir 2 dögum

„Hann trúði virkilega að það væri engin leið út ef þessar myndir yrðu birtar”

„Hann trúði virkilega að það væri engin leið út ef þessar myndir yrðu birtar”
Pressan
Fyrir 3 dögum

Dældi skilaboðum yfir konu og hvatti hana til að fyrirfara sér svo hann gæti fylgst með

Dældi skilaboðum yfir konu og hvatti hana til að fyrirfara sér svo hann gæti fylgst með