Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar. Í henni kom í ljós að aukin þreyta að degi til, getur aukið líkurnar á elliglöpum hjá konum á níræðisaldri. Í ljós kom að ef konur, 80 ára og eldri, fundu fyrir aukinni svefnþörf að degi til á fimm ára tímabili, þá tvöfaldaði það líkurnar á að þær fengju elliglöp.
Newsweek skýrir frá þessu og hefur eftir Yue Leng, aðalhöfundi rannsóknarinnar, hjá University of California, að svefn sé afgerandi fyrir andlegt heilbrigði, því hann veiti heilanum tækifæri til að hvílast og endurhlaða sig. Það bæti getu okkar til að hugsa skýr og muna upplýsingar.
„En við vitum enn mjög lítið um hvernig breytingar á svefni og hugrænni starfsemi tengjast og hvernig þessar breytingar tengjast líkunum á elliglöpum á síðari stigum lífsins,“ sagði Yue Leng einnig og bætti við að rannsóknin sýni að svefnvandamál og hugræn hnignun geta verið nátengd og kannski verið snemmbúið merki um hættuna á að konur á níræðisaldri fái elliglöp.