Með aðstoð ofurtölvu og reiknilíkana gerðu vísindamennirnir tímalínu fyrir framtíðina hér á jörðinni. Þeir segja að það verði vinkona okkar og lífgjafi, sólin, sem mun að lokum gera út af við lífið hér á jörðinni.
Þegar hún eldist, mun hún senda enn meiri hita frá sér og hún mun þenjast út og að lokum „gleypa“ innstu pláneturnar í sólkerfinu, þar á meðal jörðina okkar ástkæru.
Útreikningarnir sýna að lífið verður sífellt erfiðara hér á jörðinni næstu 999.999.996 árin. Því mun síðan ljúka alveg árið 1.000.002.021. Ofurtölvan segir að hitastigið muni hækka mikið og loftgæðin minnka mjög mikið.
Þetta er auðvitað ekki að fara að gerast í náinni framtíð og auðvitað spurning hvort við verðum búin að gera út af við okkur sjálf áður en þessi tímapunktur rennur upp?
Nú þegar er hnattræn hlýnun farin að segja til sín sem og breytingar á umhverfinu af völdum okkar mannanna og gerist þetta hraðar en spáð var.
En það er einnig ljós í myrkrinu því vísindamennirnir segja að tækniframfarir muni hugsanlega koma okkur til bjargar.