fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Pressan

„Ég borðaði besta vin minn til að lifa af“

Pressan
Miðvikudaginn 10. janúar 2024 04:25

Jose Luis 'Coche' Inciarte og Soledad.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 13. október 1972 brotlenti flug 571, sem var á leið frá Montevideo í Úrúgvæ til Santiago í Chile. Flugmaðurinn taldi að vélin væri komin nærri áfangastað og byrjaði því að lækka flugið. En vélin, sem var af gerðinni Fairchild FH-227D, var fjarri áfangastað því hún var yfir Andesfjöllunum. Hún brotlenti í fjallgarðinum. Um borð voru 40 farþegar og 5 manna áhöfn. 11 létust strax en 34 lifðu af. En framundan voru miklar hremmingar sem vörðu vikum saman og létust 18 til viðbótar.

Farþegarnir voru leikmenn ruðningsliðs sem voru á leið til Chile til að keppa. Næstu 72 daga urðu þeir og áhafnarmeðlimir, sem lifðu slysið af, að berjast fyrir lífi sínu hátt uppi í Andesfjöllunum. Svo hrikalegar voru aðstæður þeirra að þeir urðu á endanum að gera það sem flestum finnst óhugsandi að gera: Borða annað fólk.

Það var nánast enginn matur í vélinni og hún hafði brotlent svo hátt uppi í fjallgarðinum að þar var ekkert annað en snjór.

Einn þeirra sem lifðu slysið af var Jose Luis „Coche“ Inciarte. Hann hefur í gegnum tíðina tjáð sig um slysið og það sem við tók. Í  samtali við The Mirror sagði hann að hugsunin um að borða hina látnu hafi byrjað að sækja á eftir 10 daga. Þá heyrðu þeir sem enn lifðu í útvarpinu að leit að vélinni hefði verið hætt því ekki væri talið að nokkur hefði lifað af. „Þetta voru hræðilegar upplýsingar. Tilhugsunin um að ég myndi hitta móður mína og Soledad (sem var unnusta hans, innsk. blaðamanns) hafði haldið mér gangandi – en nú blasti ekkert annað en dauðinn við þarna á fjallinu,“ sagði hann.

„Við vissum að við áttum ekki meiri mat eftir svo við byrjuðum að ræða það sem var óhugsandi: Að borða frosið kjöt af líkömum vina okkar. Þetta er eitthvað sem er algjört tabú og við ræddum þetta fram og aftur og síðan gerðist svolítið ótrúlegt. Menn byrjuðu að segja að ef þeir myndu deyja myndu þeir með ánægju gefa vinum sínum líkama sína. Við horfðumst í augu við dauðann og gerðum samkomulag,“ sagði Inciarte.

En þrátt fyrir að eina lífsvon þeirra hafi verið að leggja sér félaga sína til munns var það ekki auðvelt. „Það er ekki auðvelt að borða mannakjöt. Höfuðið verður að neyða líkamann til að gera það. Munnurinn minn vildi ekki opnast og þegar hann opnaðist gat ég ekki fengið af mér að kyngja. Ég fann til algjörs hryllings yfir því sem ég gerði og ég borðaði eins lítið og ég gat komist af með en að lokum tók lífslöngunin yfir,“ sagði hann. „Ég borðaði besta vin minn til að lifa af.“

Frá slysstað. Skjáskot/YouTube

Það voru látnir félagar hans og tveir mjög hugrakkir menn sem sáu til þess að Inciarte lifði hremmingarnar af. Eftir margra vikna dvöla á fjallinum lögðu tveir af mönnunum af stað til að sækja hjálp. Þeir höfðu vikum saman undirbúið ferð þeirra. Þeir höfðu fengið meira af mannakjöti en hinir og svefnpokar höfðu verið saumaðir úr efnisbútum úr flugvélasætunum. Eftir 10 daga göngu í Andesfjöllunum komust þeir til byggða og gátu kallað eftir hjálp.

Þeim 14, sem enn voru á lífi hátt uppi í fjallinu, var bjargað 22. desember 1972.

„Uppi á fjallinu hét ég að ef ég myndi lifa þetta af myndi ég einfaldlega halda áfram að lifa til heiðurs þeim sem létust. Ég kvæntist Soledad átta mánuðum síðar og við eigum þrjú börn og átta barnabörn og ég get stoltur sagt að ég hafi lifað. Ég er með krabbamein en ég hef lifað óttalausu lífi og er þakklátur fyrir það sem ég á,“ sagði hann einnig.

Jose Luis „Coche“ Inciarte lést í júlí síðastliðnum, 75 ára að aldri.

Fjallað er um málið í myndinni Socety of the Snow sem er aðgengileg á Netflix.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað