Sem dæmi um ótrúlega úrkomu á skömmum tíma má nefna að í Durban í Suður-Afríku mældist úrkoman 300 mm á 24 klukkustundum þann 11. apríl síðastliðinn. Á aðfangadag á síðasta ári mældist úrkoman í Salvador í Nahia í Brasilíu 250 mm. Þann 4. október á síðasta ári mældist úrkoman í Rossiglione á Ítalíu 740 mm á 12 klukkustundum. Það er Evrópumet að sögn Norska ríkisútvarpsins.
Til samanburðar má nefna að mesta sólarhringsúrkoma, sem mælst hefur hér á landi, var á Kvískerjum í Öræfum þann 10. janúar 2002. Þá mældist úrkoman 293,2 mm. Þetta kemur fram á Vísindavefnum.
Og til enn frekari glöggvunar má nefna að 2019 var ársúrkoman í Reykjavík 867,8 mm að því er segir á vef Veðurstofunnar.
Ein af skýringunum á meiri úrkomu á skömmum tíma er að loftslagsbreytingarnar eigi þar hlut að máli. Hlýrra loft, meiri uppgufun og því meiri rigning. En nú hafa vísindamenn fundið enn eina breytu í þessu. Hún snýst um að breytingar hafa orðið á hvar og hvenær það rignir.
Í nýrri rannsókn, sem var unnin undir forystu Rasmus Benestad, hjá Norsku veðurstofunni, kemur fram að með því að greina fyrirliggjandi gögn sjáist að nú hafi rigning meiri tilhneigingu til að þjappa sér saman, bæði hvað varðar staðsetningu og tíma.
Vísindamennirnir rannsökuðu rigningu og regnmynstur á jörðinni frá 1950 til 2020.
Ein af niðurstöðunum er að það nú rignir meira en áður, það er að segja úrkomumagnið er meira. 2020 var úrkoman 71 milljarði tonna af vatni meir á dag en 1950.
En það vekur ekki minni athygli að rigningin er meira bundin við sömu staðin og dreifist ekki eins jafnt um jörðina og áður. Með öðrum orðum: Vot svæði verða blautari og þurr svæði verða þurrari. En þó gerist það að á sumum þurru svæðanna rignir mjög mikið inn á milli. Þetta skýrir, að minnsta kosti að hluta, þau ótrúlegu úrkomumet sem hafa verið sett á síðustu árum.