fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Pressan

Rússar sagðir ætla að trufla úrslitaleik Meistaradeildarinnar á laugardaginn með tölvuárás

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 24. maí 2018 07:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Talos Intelligence, öryggisdeild Cisco tölvufyrirtækisins, segir að rússnesk stjórnvöld séu að undirbúa risastóra tölvuárás þegar úrslitaleikurinn í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu fer fram í Úkraínu á laugardaginn. Markmiðið er talið vera að raska viðkvæmu ástandinu í landinu og trufla úrslitaleikinn.

Talsmenn Cisco segja að ákveðið hafi verið að skýra frá þessu strax þrátt fyrir að rannsókn fyrirtækisins sé ekki lokið því mikið sé í húfi. Fyrirtækið hefur tekið eftir auknum umsvifum Rússa á þessu sviði og segir að undirbúningur árásarinnar standi yfir.

Cisco segir að tölvuþrjótar hafi sýkt að minnsta kosti 500.000 beina og minnisbúnað með háþróuðum spilliforritum sem hafi verið hönnuð og búin til af opinberum aðilum. Aðalskotmarkið er að sögn Úkraína en úrslitaleikur Liverpool og Real Madrid fer fram í Kiev á laugardaginn. Beinarnir og minnisbúnaðurinn, sem hefur verið smitaður af óværunni, er í mörgum ríkjum. Sky hefur eftir Martin Lee, hjá Cisco, að Úkraína sé aðalskotmarkið.

Úkraínska leyniþjónustan segir að sérfræðingar hennar telji að spillibúnaðinum hafi verið komið fyrir til að undirbúa aðra tölvuárás Rússa á landið til að raska ástandinu í landinu áður en úrslitaleikurinn fer fram.

Spilliforritið, sem Cisco nefnir VPNFilter, getur eyðilagt tækin sem eru smituð en einnig er hægt að nota það til njósna.

Árás sem þessi gæti valdið miklu öngþveiti í Úkraínu en fyrir ári var mjög umfangsmikil tölvuárás gerð á landið og breiddist hún síðan út um heiminn. Meðal þess sem varð fyrir barðinu á árásinni var geislavirknimælibúnaður í Chernobyl. Fyrr á árinu sögðu bresk og bandarísk stjórnvöld að það hefðu verið rússnesk yfirvöld sem stóðu á bak við árásina. Stjórnvöld í Kreml þvertaka fyrir það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni

Nokkur ráð til að losna undan símafíkninni
Pressan
Fyrir 4 dögum

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað

Unglingur dæmdur í ævilangt fangelsi – Stakk ellilífeyrisþega í hjartað