Icelandic Food Company ehf., dótturfélag Krónunnar, hefur í samráði við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur, stöðvað sölu á mexíkóskri kjúklingasúpu, sem framleidd er undir merkjum Krónunnar, og innkallað vöruna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirlitinu.
Innköllunin kemur í kjölfar þess að kaupandi vörunnar, Margrét Sigríður Jóhannsdóttir, birti færslu inni á Facebook-hópnum Matartips! þar sem hún greindi frá því að hún hefði fundið einhverskonar pappír, mögulega klósettpappír eða handþurrku, ofan í súpunni eftir að hún hafði hitað hana upp og smakkað hana til með kryddum.
„Ég var að hræra í kjúklingasúpu, setti hálfan pela af rjóma útí og smakkaði til.. dró svo þennan dýrindis klósettpappír uppúr súpunni og ekkert smá magn af honum,“ skrifaði Margrét við myndina. „Er búin að vera að kúgast síðan. Hafa fleiri lent í þessu með súpur frá Krónunni? Kvöldmaturinn fór svo sannarlega í vaskinn þetta kvöldið,“ skrifað Margrét.
Eins og gefur að skilja vakti færslan mikil viðbrögð.
Margrét sagði ennfremur að Krónan hefði brugðist strax við ábendingu hennar um málið. „Krónan brást strax við og tók þetta alvarlega, sóttu pakkninguna til mín í morgun og þetta er komið inn á borð til gæðaeftirlits Krónunnar,“ skrifaði Margrét.
Krónan sendi svo frá sér tilkynningu vegna málsins
„Okkur hjá Krónunni þykir mjög miður að umrætt atvik hafi átt sér stað en um er að ræða mannleg mistök við pökkun hjá framleiðanda. Við gerum fastlega ráð fyrir að um einangrað tilvik sé að ræða en til að taka af allan vafa og gæta fyllsta öryggis er innköllunarferli hafið á þessu lotunúmeri.
Við leggjum mikla áherslu á öryggi og gæði og tökum þetta mjög alvarlega. Framleiðandi mun yfirfara og uppfæra ferla með starfsfólki sínu til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Við höfum verið í samskiptum við viðkomandi viðskiptavin og þökkum honum kærlega fyrir ábendinguna. Við biðjum viðskiptavini okkar innilega afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að hafa valdið.“