fbpx
Fimmtudagur 09.júlí 2020
Matur

Byrjaði að baka í kjallaranum – Rekur í dag sitt eigið bakarí og kökubúð: „Það hefur verið mikil vinna að komast hingað“

Aníta Estíva Harðardóttir
Sunnudaginn 30. júní 2019 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Sóley Guðbjörnsdóttir gekk með sitt þriðja barn af fjórum fann hún fyrir tilviljun hvar ástríða hennar lá. Á þeim tíma hafði Sóley bæði rekið veitingahús í Keflavík ásamt því að opna snyrtivöruverslun og starfað við að farða fólk. Leið hennar lá í átt að kökugerð og með mikilli vinnu og hjálp frá eiginmanni sínum og fjölskyldu tókst Sóleyju að uppfylla draum sinn.

„Ég sá bandarískan þátt sem heitir Cakeboss þegar ég gekk með þriðja barnið okkar og þá uppgötvaði ég tertuskreytingar í fyrsta skiptið. Ég byrjaði að gera tilraunir heima og ég elskaði það. Ég elska bæði að baka og skreyta en þess á milli kúri ég með fjölskyldu minni. Ég er algjör vinnualki en ég hef náð að fá fjölskyldu mína til þess að vinna með mér svo ég hitti þau nú líka. Ég er mjög spes og þegar ég var krakki átti ég enga vini. Ég er nýlega greind með ADHD sem útskýrði mjög margt fyrir mér af því að ég hef alltaf viljað gera allt alveg strax, ég hef ekki mikla þolinmæði og er algjör brussa. Ég er glöð yfir að hafa fundið mann sem elskar mig þrátt fyrir það allt saman. Auðvitað geri ég hann oft klikkaðan en hann jafnar sig nú yfirleitt,“ segir Sóley og brosir sínu skærasta.

Sóley og Marcus / Mynd: Aðsend

Stundaði nám ein með tvö börn

Sóley er þrjátíu og átta ára gömul og er gift Marcus Johansson. Fjölskyldan er búsett í Svíþjóð þar sem Sóley rekur bakarí og tekur fólk í kökuskreytingakennslu.

„Ég flutti út til Svíþjóðar með mömmu og pabba þegar ég var fjögurra ára en var á svolitlu flakki á milli Íslands og Svíþjóðar þar til ég varð sextán ára. Þá flutti ég sjálf til Íslands og hitti þar strák sem ég varð ástfangin af. Við eignuðumst barn þegar ég var 18 ára gömul og opnuðum veitingahús í Keflavík. Þegar ég var ólétt að okkar seinna barni árið 2004 fór ég frá honum og flutti aftur til Svíþjóðar. Þá vissi ég ekki alveg hvað ég vildi gera en ég ætlaði að eignast barnið og vera í skóla á meðan ég starfaði í veitingahúsabransanum.“

Eftir að Sóley lauk námi opnaði hún snyrtivöruverslun úti í Svíþjóð og kynntist eiginmanni sínum. Sóley og Marcus urðu fljótt ástfangin og varð hún ólétt að sínu þriðja barni. Þegar Sóley átti barnið ákváðu þau að loka versluninni og fljótlega varð Sóley ólétt aftur og eftir að fjórða barn hennar fæddist ákvað hún að hætta barneignum.

Fjölskyldan hjálpast að við baksturinn / Mynd: Aðsend

Dekruð af eiginmanninum

„Við keyptum okkur hús saman og ég stofnaði bakarí. Ég byrjaði á því að leigja eldhús inni í verslun en svo byggði maðurinn minn bakarí í kjallaranum okkar fyrir mig. Ég hóf þá að kenna tertuskreytingar og fljótlega stækkaði það og ég þurfti að finna mér húsnæði í bænum. Maðurinn minn byggði þá aftur fyrir mig bakarí en í þetta skiptið bættum við við kökubúð,“ segir Sóley og viðurkennir fúslega að eiginmaður hennar dekri hana mikið.

„Hann hætti í vinnunni sinni til þess að hjálpa mér við búðina og reksturinn. Það hefur verið mikil vinna að komast hingað og fólk vill alltaf fá meira og meira frá manni. Ég þarf líka að læra að segja nei en einmitt núna erum við að byggja kaffihús í búðinni og kostar það auðvitað meiri vinnu. Dóttir mín elsta, sem er tvítug, flutti til Englands en hún hjálpaði mér mikið áður. Í dag hjálpa mamma mín og fjórtán ára sonur minn mér mikið. Ég elska starfið mitt en maður þarf virkilega að gefa sig allan í þetta og þetta er ekki eitthvað sem þú verður ríkur af.“

Sóley er ótrúlega hæfileikarík. / Mynd: Aðsend

Kennslumyndböndin eftirsótt

Margt fólk fór að spyrja Sóleyju ráða í gegnum netið og hóf hún þá að taka upp kennslumyndbönd sem hún hefur deilt við góðar undirtektir.

„Ég byrjaði að gera stutt myndbönd eftir að fólk fór að biðja mig um aðstoð við hitt og þetta. Þetta varð mjög vinsælt og fólk fór að biðja um meira. Þar sem ég kenni tertuskreytingar gerði ég bara smá „sneakpeak“ sem sýnir samt ekki of mikið. Um daginn ákvað ég að tala inn á myndband sem ég var að gera því þannig átti ég auðveldara með að útskýra fyrir Íslendingum hvað það var sem ég var að gera. Íslenskan mín er ekki góð og ég er ekki stolt af henni en ég ákvað nú samt að gera það. Vanalega hef ég bara haft tónlist undir. Ég ætla mér að gera fleiri myndbönd og er að reyna að finna leiðir til þess að gera þau betri og flottari, en ég er nú bara einn bakari.“

Aðspurð út í það hvort hún sakni aldrei Íslands segist Sóley auðvitað bera tilfinningar til landsins en að Svíþjóð sé hennar heimaland.

„Ég sakna auðvitað Íslands en ég hef haft lítinn tíma til þess að koma í heimsókn. Fyrir mér er þetta líka bara annað land af því að ég er uppalin hérna í Svíþjóð. Ég kann minna á hvernig kerfið á Íslandi virkar. En ég hlakka samt til að komast í heimsókn til Íslands og ég hef stundum sagt við manninn minn að við ættum að prófa að flytja þangað einhvern tímann þegar við verðum eldri … Kannski!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Katrín svarar Kára

Ekki missa af

Matur
Fyrir 3 vikum

Þetta borðar Guðmundur Franklín á venjulegum degi

Þetta borðar Guðmundur Franklín á venjulegum degi
Matur
Fyrir 3 vikum

Geggjað grillpartí með lítilli fyrirhöfn – lambaspjót og desert

Geggjað grillpartí með lítilli fyrirhöfn – lambaspjót og desert
Matur
03.06.2020

Segist aldrei þurfa að skamma son sinn þökk sér vegan-mataræði

Segist aldrei þurfa að skamma son sinn þökk sér vegan-mataræði
Matur
02.06.2020

Skerðu vatnsmelónuna á skotstundu með tannþræði

Skerðu vatnsmelónuna á skotstundu með tannþræði