Fyrir skömmu ætlaði blaðakona að gera sér dagamun og grípa sér eina dísæta hrísmjólk með kanil í búðinni. Hana var þó hvergi að finna, aðeins kollega hennar, hrísmjólk með sultu og hrísmjólk með karamellu. – Hlýtur að vera uppseld, hugsaði blaðakona með sér. En raunin reyndist önnur. Blautur hanski raunveruleikans sló blaðakonu í andlitið þegar henni barst svar frá Mjólkursamsölunni um afdrif kanilhrísmjólkurinnar. „Hrísmjólk með kanil var tekin úr sölu vorið 2017 vegna dræmrar sölu. Ekki eru uppi áform um að koma með hana aftur á þessari stundu.“ Þetta eru sorgartíðindi. En þó, eftir smá umhugsun, líklega ekki svo óvænt þar sem blaðakonu hefur greinilega ekki dottið í hug síðan fyrir árið 2017 síðast að leita eftirréttinn góða uppi. Í sárabætur frá Mjólkursamsölunni fengust upplýsingar um mest seldu mjólkurvörur fyrirtækisins, sem blaðakona þáði fegins hendi, enda mætti heimurinn fyrr enda áður en hún legði sér hrísmjólk með sultu til munns.
„Mjólkursamsalan pakkar 25 milljónum mjólkurferna á hverju ári og er nýmjólk vinsælust. Af ostunum okkar er Góðostur vinsælastur og auðvitað pizzaostur á föstudagspizzuna. Íslendingar eru líka hrifnir af smjöri og rjóma í matinn sinn en allar þessar vörur eiga það sameiginlegt að raða sér í toppsætin í sölu hjá Mjólkursamsölunni. Af jógúrt og skyrsölu er það hrein AB mjólk sem Íslendingar hella helst í skál eða næstum ein milljón lítra á hverju ári, á eftir því kemur Ísey skyr sem er vinsælasta skyrið okkar. Þegar horft er á vinsælustu mjólkurvörurnar hjá Mjólkursamsölunni mætti því segja að hreinar fituríkar mjólkurvörur rati helst í innkaupakörfuna hjá landsmönnum.“
Þar höfum við það. Íslendingar eru hrifnastir af hreinum og fituríkum mjólkurvörum en ekki hrifnir af hrísmjólk með kanilsulli.