Vísindamenn í Ástralíu hafa þróað nýtt bóluefni sem kallast Nexvax2. Tilgangur bóluefnisins er að endurforrita ónæmiskerfi þeirra sem þjást af glútenóþoli og hvernig líkaminn bregst við neyslu glútens. Þetta þýðir í stuttu máli að ef allt gengur að óskum gæti glútenóþol heyrt sögunni til.
Samkvæmt vefsíðunni doktor.is er glútenóþol sjaldgæfur sjúkdómur þar sem einstaklingurinn hefur óþol fyrir ákveðnum hluta glútens, sem má finna í korni, sérstaklega hveiti, byggi og rúgkorni. Þeir sem eru með glútenóþol þurfa því að sleppa þessum korntegundum úr sínu mataræði. Glútenóþol hefur áhrif á slímhúð smáþarmanna og leiðir til minnkunar á starfsemi þeirra. Upptaka næringarefna, vítamína, steinefna, kolvetna og fitu, verður því ekki með eðlilegum hætti og minnkar mikið.
Ef við lítum til Bretlands þá er talið að um hálf milljón manna séu með glútenóþol án þess að vita það. Því má ætla að nokkur hundruð manns á Íslandi þjáist af þessum sjúkdómi án þess að gera sér í raun grein fyrir því. Algengast er að sjúkdómurinn greinist hjá fólki á aldrinum eins til fimm ára og svo aftur í kringum þrítugt.
Ef mótefnið Nexvax2 kemst á markað, eftir ýmsar tilraunir sem á eftir að gera, gæti fólk með glútenóþol étið eins mikið af fyrrnefndum korntegundum og það vill. Doktor Jason Tye-Din, sem stjórnaði rannsókninni, segir í samtali við The Herald Sun að mótefnið ráðist á vissar frumur og kenni líkamanum að melta glúten á betri hátt.
Þetta eru gífurlega góðar fréttir fyrir þá sem þjást af glútenóþoli, en sjúkdómurinn er í sumum tilfellum ættgengur. Glútenóþol er ekki lífshættulegt en hjá sjúklingum verða einkennandi breytingar í slímhúð smáþarmanna, meðal annars bólgubreytingar. Þessar breytingar leiða svo af sér ýmsa vanstarfsemi þarmanna.
Eins og áður segir eru margir með glútenóþol án þess að vita það. Því fylgja hér fyrir neðan einkenni sjúkdómsins, sem einnig er að finna á vefnum doktor.is.
* Vaxtarstöðvun og vanlíðan hjá börnum, þau „þrífast“ ekki.
* Vítamin- og steinefnaskortur (sérstaklega járn, kalk og fólínsýra)
* Þreyta og almennur slappleiki (vegna járn- eða blóðleysis)
* Langvinnur niðurgangur.
* Þyngdartap.