fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Móðirin sem varð að hverfa

Ritstjórn DV
Föstudaginn 24. maí 2019 22:00

Carine Micha Fékk nánast alla upp á móti sér áður en yfir lauk.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Carine Micha flutti til Angleur, úthverfi Liege í Belgíu, var hún fljót að vinna hug og hjörtu nágranna sinna. Hún sást tíðum á hverfiskránum þar sem hún söng karókí af miklum móð. Carine var um þrítugt en virtist í reynd vera mun yngri.

Það sem enginn vissi var að undir gleðilegu yfirbragði leyndist dapurleg fortíð. Foreldrar hennar voru áfengissjúklingar og höfðu farið illa með hana. Henni hafði verið nauðgað þegar hún var fjórtán ára og fljótlega eftir það strauk hún að heiman með fyrstu unglingaástinni en það samband fór fljótlega fjandans til.

Þessa voru engin merki að sjá þegar hún flutti til Angleur. Þar flögraði hún um hverfið eins og fiðrildi og ekki laust við að grunnt væri á daðri hjá henni.

Karókí og bjór

Carine hafði ekki eingöngu yndi af karókí því hún hafði einnig kolfallið fyrir bjór sem hún drakk nánast í tunnuvís. Þegar hér er komið sögu var hún ekki fær um að ala upp syni sína tvo, á táningsaldri, sem hún hafði sjálf eignast ung að árum. Hún bjó með dóttur sinni og dró fram lífið á bótum.

Enga stefnu var að sjá í tilveru Carine, nema kannski fyrst og fremst beint niður á við. Bjórdrykkjan gerði hana óútreiknanlega og erfiða í samskiptum.

Eitt sinn er hverfisbúar skelltu í sumarkarnival endaði Carine uppi í rúmi með kvæntum nágranna sínum. Næsta dag veittist eiginkona mannsins að Carine á götu úti. Hún hefði betur sleppt því, því til áfloga kom og Carine sneri eiginkonuna niður og sparkaði af heift í höfuð hennar.

Hnífur í öxlina

Eftir þá uppákomu höfðu nágrannar varann á sér í viðskiptum við Carine.

Ekki skánaði ástandið við næsta tiltæki Carine. Þannig var mál með vexti að nýjasti kærasti hennar, Lillo, bjó í sama fjölbýlishúsi og hún, við Rue Vaudree, reyndar gegnt hennar íbúð.

Nótt eina, eftir að hafa slokað í sig nokkrum bjórum, tók hún sér hníf í hönd, læddist inn til Lillos, sem svaf værum svefni, og rak hnífinn í öxl hans.

Sem betur fer fór hnífurinn grunnt og Lillo, sem þó var í áfalli, aftók að leggja fram kæru. Aftur á móti taldi læknir Carine réttast að hún sækti um skeið göngugeðdeild í fimm vikur og var dóttur hennar komið fyrir í fóstri þann tíma.

Geðdeild og gifting

Á göngudeildinni ríkti engin lognmolla í kringum Carine og var engu tauti við hana komið. Carine innbyrti kokteila áfengis og lyfja við hinum ýmsu kvillum sem voru annaðhvort raunverulegir eða ímyndaðir.

Í einu slíku rúsi tilkynnti hún nágrönnum sínum í Angleur að hún væri að ganga í hjónaband.

Brúðgumann hafði Carine hitt á göngudeildinni. Hann var helmingi yngri en hún og þrátt fyrir að hann væri stórskorinn maður þá virtist hann afar lítill inni í sér. Í hvert einasta skipti sem hann opnaði munninn þá varð hann svo niðurlútur að engu var líkara en hann væri að skoða skóna sína.

Skammlíf hjónabandssæla

Carine velti öllu slíku lítið fyrir sér, „Innst inni er ég svo rómantísk,“ sagði hún. Hún klæddi sig í síðan, hvítan brúðarkjól og spígsporaði niður götuna til ráðhússins þar sem hún og hinn ónafngreindi, óframfærni brúðgumi voru gefin saman.

Á meðan Carine rölti þangað mátti heyra nágranna hennar hvísla: „Hér kemur frú Pompadour,“ með skírskotun til hinnar eyðslusömu og metnaðarfullu hjákonu Loðvíks XV. Frakklandskonungs.

Engum sögum fer af brúðkaupsnóttinni á 11. hæð fjölbýlishússins við Rue Vaudree, en áður en vika var liðin sást til Carine þar sem hún sparkaði hinum álánssama eiginmanni út um aðaldyrnar og beint út á götu. Segir ekki meira af honum.

Ofbeldisfullur ástmaður

Carine fann sér snarlega nýjan ástmann. Sá var ekkert líkur eiginmanni hennar. Richard Dulapa var ofbeldisfullur alkóhólisti og óhætt að segja að þar hafi skrattinn hitt ömmu sína. Eitt sinn ók hann á Carine á vespunni sinni, hann gekk í skrokk á Carine og dró hvergi af sér við barsmíðarnar. Punktinn yfir i-ið setti Richard þegar hann braut allt og bramlaði í íbúð Carine.

Einn nágrannanna fékk sig fullsaddan og lét Richard bragða í sínum eigin meðulum. Árangurinn varð sá að Richard handleggsbrotnaði, fótleggur brákaðist og hann sat uppi með stálplötu í höfðinu. Þetta gerðist í desember árið 2007.

Svikalogn og eldsvoði

Lagðist þá ró yfir hverfið, sem íbúar sennilega treystu varlega á. Dagar urðu að vikum, sem urðu að mánuðum og á allraheilagramessu árið 2008 dró til tíðinda svo um munaði.

Á vettvangi
Slökkviliðsmenn fundu tvö koluð lík í stofunni.

Eldtungur teygðu sig út um glugga íbúðar Carine og slökkviliðsmönnum varð fljótlega ljóst að um íkveikju var að ræða, enda börðust þeir við eld á ótal stöðum.

Þegar þeir höfðu ráðið niðurlögum eldsins fundu þeir lík Carine og Richards sótsvört, hlið við hlið í stofunni. Þau höfðu þó ekki orðið eldinum að bráð því hvort tveggja var búið að stinga þau margsinnis með hníf og þau síðan skorin á háls.

Bensíni hafði verið skvett hér og þar í íbúðinni og síðan borinn eldur að.

Rifrildi móður og sona

Syni Carine bar á góma hér fyrr í þessari frásögn og þegar hér var komið sögu voru þeir um tvítugt. Að sögn voru þeir þónokkrir rustar og kölluðu ekki allt ömmu sína. Höfðu þeir báðir komist í kast við lögin.

Sjónir lögreglu beindust nú að þeim bræðrum, Philippe og Gregory. Þótt þeir væru kannski ekki barnanna bestir þá voru þeir orðnir langþreyttir á því orðspori sem fór af móður þeirra. Steininn tók þó úr þegar Carine lenti í rifrildi við Gregory, þá 20 ára, og bar honum á brýn að hann sæi ekki almennilega um dóttur sína.

Fannst þeim bræðrum að móðir þeirra gæti trútt um talað og það var reyndar Philippe sem brást verr við og gaf móður þeirra einn á hann, eins og sagt er.

Óyndisúrræði

Að kvöldi þessa dags ákvaðu þeir að losna við móður sína fyrir fullt og allt og leituðu aðstoðar vinar síns, Christophes Renard, sem átti vespu. „Við verðum að losa okkur við mömmu,“ sögðu bræðurnir.

Sonur Carine
Philippe Galere fékk sig fullsaddan af móður sinni.

Þremenningarnir settust allir á vespuna og brunuðu að Rue Vaudree. Gregory beið niðri á jarðhæð en Philippe fór upp í íbúð Carine og var Richard Dulapa þá staddur hjá henni.

Síðar, þegar Philippe kom niður aftur, mun hann hafa sagt við bróður sinn: „Ég þurfti að stúta Richard líka. Hvað gerum við nú?“ Sagan segir að þeir hafi farið og sótt sér bensín og snúið aftur í íbúðina. Enn og aftur var það Philippe sem fór upp og sá um hlutina.

Vanhugsaður verknaður

Ljóst má vera að ekki höfðu þeir bræður skipulagt sig vel því þónokkrir íbúar í fjölbýlishúsinu sáu Philippe þramma upp stigana með bensínbrúsa. Þegar slökkviliðið kom var Philippe enn á staðnum, stóð fyrir utan blokkina og spjallaði við íbúana.

Daginn eftir voru bræðurnir handteknir og ákærðir fyrir morð. Um mitt ár 2011 fékk Philippe 25 ára dóm fyrir vikið og Gregory fékk 10 ára dóm.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona