fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024

Sex dularfull mannshvörf á Íslandi

Tónlistarmaðurinn Bjarki Hall hellti sér í rannsóknir á mannshvörfum eftir slys.

Hjálmar Friðriksson
Sunnudaginn 18. júní 2017 23:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarki Hall, tónlistarmaður og gröfumaður hjá Ístak, varð fyrir því óláni fyrr á þessu ári að lenda í slysi og brjóta á sér fótinn. Hann var um tíma bundinn við hjólastól og óvinnufær. Í stað þess að leggjast í sjónvarpsgláp hellti Bjarki sér í rannsóknir á íslenskum mannshvörfum. Hann hefur komið á fót Facebook-síðu þar sem hann deilir umfjöllun sinni um hin ýmsu mannshvörf á Íslandi. Bjarki hefur gefið DV góðfúslega leyfi til að endurbirta umfjöllun hans um sex dularfull mannshvörf sem hann telur vert að rifja upp.

Bjarki hellti sér í rannsóknir á íslenskum mannshvörfum
Bjarki Hall Bjarki hellti sér í rannsóknir á íslenskum mannshvörfum

Mynd: Berglind Amy Guðnadóttir

„Ég hef alltaf haft áhuga á mannshvörfum. Þessi mál sem ég er að fjalla um eru mikið mál sem hafa ekki fengið mikla umfjöllun, en eru samt skrýtin. Þegar ég var tíu ára þá hurfu tveir strákar í Keflavík og þá barst til tals í fjölmiðlum hvarf Geirfinns. Ég fór að spyrja mömmu hvað það væri og þá sagði hún mér að Geirfinnur hafi búið í sama húsi og afi í Keflavík. Þá einhvern veginn fékk ég þennan áhuga, sem hefur verið óslökkvandi síðan,“ segir Bjarki í samtali við DV.

Færeyingurinn sem hvarf

Sama ár og Guðmundur og Geirfinnur hurfu árið 1974 hvarf jafnframt færeyski sjómaðurinn Willy Petersen. „Willy Petersen, sjómaður frá Færeyjum var fæddur 13. júní 1930 í Danmörku. Hann flutti til Íslands 1951 og starfaði hér sem verkamaður og sjómaður. Hann bjó um tíma með íslenskri konu en sumarið 1974 slitnaði upp úr þeim hjúskap.

Frændi Willy fékk símtal frá honum 4. september 1974. Hann segir að Willy hafi verið mikið niðri fyrir og viljað segja sér eitthvað. Símtalið varð hinsvegar ekki langt. Allt í einu heyrðust mikill umgangur og læti í bakgrunni eins og ruðst væri inn í herbergið þar sem Willy var staddur og svo slitnaði símtalið. Síðan hefur ekkert spurst til hans.

Þrátt fyrir eftirgrennslan ættingja Willy og lögreglu fundust aldrei neinar upplýsingar sem varða hvarf hans. Ekki virðist hafa farið fram formleg leit að neinu marki sem heitið getur.

Í málsgögnum Guðmundar og Geirfinnsmálsinns er að finna gögn þar sem hvarf þessa færeyska sjómanns er hermt upp á þá sem dæmdir voru í því máli. Frásagnir þar að lútandi eru hinsvegar svo galnar eins og allflest í þeirri rannsókn að ekki verður sagt að mark sé á þeim takandi.

Willy var sagður nokkuð reglusamur. Hann var bláeygður, rúmlega meðalmaður á hæð og kraftalega vaxinn.

Ekki er vitað hver verustaður hans var þegar hann hvarf nema að talið er að hann hafi verið staddur í Reykjavík þegar ofangreint símtal átti sér stað. Reistur hefur verið minningarsteinn til minningar um Willy Petersen í Gufuneskirkjugarði,” skrifar Bjarki um mál Willy.


Viktor hvarf sporlaust í Bláfjöllum

Fjórum árum fyrir hvarf Willy hvarf Viktor Bernharð Hansen í Bláfjöllum. „Viktor Bernharð Hansen var fæddur 3. Apríl 1929. Hann bjó með aldraðri móður sinni að Álftamýri 32 í Reykjavík, ókvæntur og barnlaus. Viktor starfaði sem bifreiðastjóri hjá Slippfélagi Reykjavíkur og var vel liðinn á vinnustað sínum.

Laugardaginn 17. október árið 1970, um kl. 13:00 fór Viktor ásamt vinnufélaga sínum, Agli Fr. Hallgrímssyni til rjúpnaveiða í Bláfjöllum. Þeir lögðu bifreið Viktors sem var rauður Ford Bronco við Arnarsetur sunnan Þríhnjúka. Þar skyldu leiðir en þeir sammældust um að hittast aftur við bílinn um kl. 16:30. Viktor hélt til austurs en Egill í vesturátt. Þegar Egill kom aftur á tilsettum tíma að bifreiðinni var Viktor enn ókominn. Um kl. 19:00 fór hann að svipast um eftir félaga sínum og hleypti af nokkrum skotum upp í loftið í von um að Viktor myndi heyra í þeim og svara á sama hátt.

Þegar Egill hafði ekkert orðið Viktors var um kl. 21:00 afréð hann að ganga niður á Sandskeið sem var um tveggja tíma gangur, þar fékk hann far með bifreið til Reykjavíkur og tilkynnti hann þá hvarf Viktors. Samkvæmt Agli voru þeir báðir með lykla af bifreið Viktors í vasanum en hann afréð þó að skilja bílinn eftir ef Viktor skyldi koma í millitíðinni. Viktor var vanur veiði og göngumaður, heilsuhraustur og vel útbúinn.

Leit hófst strax um kvöldið og varð hún talsvert umfangsmikil. Egill tók þátt í leitinni ásamt fleirum vinnufélögum Viktors, auk þess sem félagar úr skotfélagi Reykjavíkur tók þátt í leitinni. Fyrstu dagana þurftu menn þó að vera varir um sig vegna skothvella frá rjúpnaskyttum sem voru við veiðar á svæðinu.

Ekkert fannst. Engin spor og ekkert sem gaf til kynna hvar Viktor væri eða hvert hann hefði farið. Leitað var í tvær vikur án árangurs.

Skömmu eftir hvarfið gaf sig fram vitni sem sagðist hafa séð Bronco bifreið áþekka þeirri sem Viktor átti um kl. 17:00 á ferðinni vestan við Bláfjöll á leið niður á Suðurlandsveg. Ökumaður bílsins hafi verið einn i bílnum, klæddur hettuúlpu með hettuna dregna fram yfir höfuð svo ekki sást í andlit hans. Auglýst var eftir þessari bifreið í fjölmiðlum. Einhverjum dögum seinna gaf sig svo fram maður sem sagðist eiga samskonar bifreið og hafi verið á ferðinni á þessum slóðum þennan dag. Ástæðu þess að hann hafi ekki gefið sig fram fyrr hafi verið sú að hann hafi verið út á landi og ekkert fylgst með fréttaflutningi.

Einhverjir leitarmenn höfðu orð á því þegar Viktors var leitað að réttast væri að fram færi lögreglurannsókn vegna hvarf hans og það yrði rannsakað sem sakamál. Þeim varð þó ekki að ósk sinni. Leitað var aftur vorið 1971 þegar snjóa leysti en ekkert fannst þá frekar en áður sem tengdist Viktori eða gat útskýrt hvarf hans.


Guðlaugur gufaði upp 1980

Meðal dularfyllstu málum sem Bjarki hefur fjallað um er hvarf Guðlaugs Kristmannssonar sem gufaði upp árið 1980. „Guðlaugur Kristmannsson var fæddur 30. janúar árið 1924. Hann giftist Önnu Kristjönu Bjarnadóttur árið 1954 og eignuðust þau soninn Bjarna. Anna átti fyrir dótturina Margréti Hansen. Faðir Margrétar var Hans Jörgen Hansen. Anna lést 1995.

Guðlaugur var einn eiganda og verslunarstjóri JBP sem staðsett var á horni Ægisgötu og Mýrargötu.

Þriðjudagsmorguninn 12. febrúar árið 1980 hélt hann frá heimili sínu, Granaskjóli 4 í Reykjavík kl. 7:20 til vinnu sinnar fótgangandi sem svo oft áður þegar veður var gott.

Þegar hann mætti ekki til vinnu sinnar á tilsettum tíma fóru samstarfsmenn hans að undrast um hann, enda var Guðlaugur með eindæmum stundvís maður af þeirra sögn og annarra sem hann þekktu. Frá heimili Guðlaugs og að verslun JBP var ekki nema um stundarfjórðungs gangur. Veður var gott þessa daga og jörð var auð.

Fljótlega þennan dag var sett af stað eftirgrennslan og síðan leit af Guðlaugu. Leitað var á landi, úr lofti og á sjó. Fjörur gengnar og kafarar leituðu í Reykjavíkurhöfn en án árangurs. Ekki fannst tangur né tetur af Guðlaugi.

Lýst var eftir honum í blöðum og þar kemur fram að hann hafi verið um 180 sm á hæð, skolhærður, þunnhærður með yfirvaraskegg. Klæddur í brúna beltisúlpu með skinnkraga, gráköflóttum jakka, grárri skyrtu, brúnum buxum, brúnum skó með derhúfu. Heilsuhraustur og hress með lífið og tilveruna. Fram kemur einnig að hann hafi átt það til að fá sér göngutúr um hafnarsvæðið í Reykjavík áður en hann mætti til vinnu.

Þrátt fyrir umfangsmikla leit og eftirgrennslan fannst aldrei neitt sem skýrt gat hvarf Guðlaugs. Það var bókstaflega eins og hann hefði gufað upp. Fjölskylda hans varð fyrir talsverður símaónæði eftir hvarfið. Var þar að mestu um að ræða drukkið fólk sem hringdi úr samkvæmum að nóttu til og spurðu hvort Guðlaugur væri fundinn.

Enn þann dag i dag hefur ekkert komið fram sem varpað gæti ljósi á hvarfið. Guðlaugur var úrskurðaður látinn árið 1983 og var haldin minningarathöfn um hann sem átti að vera í kyrrþey en kirkjan fylltist þó, enda var Guðlaugur vinsæll og vinmargur maður,“ skrifar Bjarki.


„Lyklar bifreiðarinnar voru í læsingu bílstjórahurðarinnar“

Bjarki telur að eitt sérkennilegasta málið sem hann hefur fjallað um er hvarf Þjóðverjans Max Robert Heinrich Keil en hann tók upp íslenskt ríkisfang og nafnið Magnús Teitsson. „Max Robert Heinrich Keil var fæddur í Luckau í Þýskalandi 14. janúar 1908. Eftir að hann fluttist til Íslands 1930 og fékk íslenskt ríkisfang tók hann upp nafnið Magnús Teitsson.

Þegar Ísland var hernumið af Bretum fór Magnús ekki varhluta af því frekar en aðrir samlandar hans sem búsettir voru á Íslandi, að margt var heppilegra en að vera ættaður frá Þýskalandi á þeim tíma. Hann var einn af mörgum Þjóðverjum sem teknir voru til fanga og fluttir til Englands í stríðinu.

Eftir stríðslok er hann kom heim til Íslands aftur fór hann að vinna fyrir Málningu h/f. Hann vann svo í framhaldinu hjá Hörpu sem var þá að hluta til í eigu Málningar h/f en var svo síðar gerður að stjórnarmanni hjá því fyrirtæki. Eftir það stofnaði hann fyrirtækið Stálborg og var framkvæmdarstjóri þess fyrirtækis. Magnús var talinn góður stjórnandi af þeim sem til þekktu, reglusamur og stundvís.

Kona Magnúsar var Helga Þorsteins. Börn þeirra eru Elísabet, Þorsteinn, Ásdís og Sigríður. Helga lést 1994.

Magnús fór frá heimili sínu, Þingholtsbraut 63 í Kópavogi, laugardaginn 30. nóvember 1968 á VW bjöllu bifreið sinni og hugðist ætla að hjálpa kunningja sínum sem bjó í húsi sem hét Strönd og var í landi Sæbóls við Fossvog í Reykjavík.

Hann hugðist ætla að koma heim aftur um kvöldmatarleytið. Þegar klukkan nálgaðist 20:00 fór fjölskyldan að ókyrrast og kom þá í ljós að bifreið hans var komin fyrir utan heimili þeirra en ekkert bólaði á honum. Við nánari skoðun kom í ljós að lyklar bifreiðarinnar voru í læsingu bílstjórahurðarinnar.

Samkvæmt áður nefndum kunningja Magnúsar fór hann frá honum úr Fossvoginum um kl. 19:00 og hugðist ætla að halda heim á leið. Hann sagðist ekki hafa séð neitt óvenjulegt í fari hans.

Kl. 22:00 var tilkynnt um hvarf hans og hófst eftirgrennslan eftir honum og svo umfangsmikil leit þá um kvöldið. Í auglýsingum blaðanna þar sem lýst er eftir Magnúsi er hann sagður vera klæddur í ljósa úlpu með dökkum ullarkraga, dökkum buxum og skóhlífum. Notar gleraugu og meðal hár vexti.

Aldrei hefur fengist nein skýring á hvarfi hans og ekkert hefur spurst til hans. Umfangsmikil leit var gerð af Magnúsi en aldrei fannst neitt sem hægt að var að tengja við hann eða hvarf hans,” skrifar Bjarki.


Átti það til að hlaupa yfir bannsvæði

Eitt elsta mannshvarfið sem Bjarki hefur fjallað um er hvarf Hannesar Pálssonar sem hvarf meðan seinni heimsstyrjöldin geisaði. „Hannes Pálsson bifvélavirki var fæddur 2.1. 1920, yngstur fimm systkina. Foreldrar Hannesar voru Hansína Karolína Bergvinsdóttir frá Brekku í Aðaldal, fædd 31.12.1880, látin 3.4.1920 og Páll Jónsson bakari á Akureyri fæddur 29.12.1883, látinn 18.2.1969. Systkini Hannesar voru Karl, Hákon, Elínborg og Bergþóra. Þau eru öll látin.

Þegar Hansína, móðir Hannesar lést í apríl 1920 var honum komið í fóstur til Guðfinnu Jónsdóttur á Akureyri en hann var þá einungis 3 mánaða gamall.

Þegar Hannes var 25 ára gamall bjó hann á Grettisgötu 51 í Reykjavík og vann sem bifvélavirki á bifreiðaverkstæði Egils Vilhjálmssonar. Hann þótti reglusamur og laus við hverskyns útsláttarsemi. Fimmtudagsmorguninn 4. Janúar 1945 fór hann frá heimili sínu á Grettisgötu og hugðist ganga til vinnu sinnar sem svo oft áður. Hann var klæddur bláum vinnufötum, með bláa skíðahúfu og með brúnan trefil. Í lýsingum á Hannesi, sem finna má á síðum dagblaða frá þessum tíma er hann sagður ljóshærður, hár vexti og grannur.

Hannes mætti ekki til vinnu sinnar, og hefur ekkert til hans spurst síðan hann fór frá heimili sínu þennan janúarmorgun. Lýst var eftir honum í blöðum daginn eftir og umtalsverð leit var gerð af honum en án árangurs.

Samkvæmt ættingjum Hannesar, hafði hann haft orð á því einhverju fyrir hvarfið, að eflaust myndi hann lenda í vandræðum einn daginn því hann ætti það til á ferðum sínum að hlaupa yfir bannsvæði sem var á vegum hersins og slíkir tilburðir voru ekki líklegir til vinsælda og gátu jafnframt verið hættulegir. Ekki hefur fundist neitt sem bendir til þess að athugun hafi verið gerð á þessum möguleika af lögreglu þegar leit af honum stóð yfir,” skrifar Bjarki.


Frægasta mannshvarfið

Bjarki fjallar jafnframt á síðu sinni um sennilega frægasta mannshvarf Íslandssögunnar, hvarf Geirfinns. Bjarki telur að hann hafi efnivið í bók svo mikið hefur hann rannsakað það mál. „Geirfinnur var fæddur í Dalalandi á Vopnafirði 5. september 1942. Foreldrar hans voru Einar Runólfsson og Anna Guðbjörg Jónsdóttir. Geirfinnur var 4 barn foreldrar sinna. Eldri en hann eru Þórunn, Runólfur Kristberg (hvarf 1941) og Runólfur Kristberg. Yngri en Geirfinnur er svo Sigurður Smári.

Þegar móðir Geirfinns lést árið 1950 var systkinahópnum tvístrað og þau send í fóstur. Geirfinnur var sendur til ættingja sinna á bænum Straumi í Hróarstungu þar sem hann dvaldi fram á síðari hluta unglingsaldurs. Hélt hann þá að heiman og stundaði vinnu meðal annars á Seyðisfirði, Egilstöðum og í Neskaupstað.

Geirfinnur fluttist svo til Keflavík. Hann vann þar í fiski, stundaði eitthvað sjómennsku og svo við stjórnun vinnuvéla og þá mest hjá Ellerti Skúlasyni verktaka. Fyrir Ellert vann hann meðal annars við framkvæmdir upp í Búrfelli og Sigöldu þegar reistar voru þar virkjanir. Þegar hvarf hans bar að starfaði hann við ámokstur í grjótnámu sem var í tengslum við hafnarframkvæmdir í Sandgerði.

Geirfinnur giftist Guðnýju Sigurðardóttur árið 1963 og eignuðust þau 2 börn. Sigurð Jóhann fæddan 1964 og Önnu Birgittu fædda 1970.

Þriðjudagskvöldið 19. nóvember 1974 fór Geirfinnur frá heimili sínu að Brekkubraut 15 í Keflavík, til fundar við óþekktan mann eða menn við Hafnarbúðina í Keflavík um kl. 22:30. Hann var þá ný kominn heim aftur, en hann hafði farið út fyrr um kvöldið eða um klukkan 22:00 til að mæta á áðurgreint stefnumót en virðist ekki hafa hitt neinn eins og til stóð og því farið heim aftur. Þegar hann var rétt kominn heim hringdi síminn og heyrðist Geirfinnur segja í símann. „Ég er búinn að koma“ og svo litlu síða „allt í lagi, ég kem þá“. Ekkert hefur spurst til hans síðan.

Þórður Ingimarsson vinur og vinnufélagi Geirfinns hafði eftir honum frá því fyrr um þetta kvöld að honum hefði þótt þetta stefnumót undarlegt. Geirfinnur hafi sagt sér að hann hafi átt að koma einn, fótgangandi á stefnumótið og enginn mætti vita af því og talað um að sennilegast væri rétt að vera vopnaður.

Upphófst umfangsmikil leit og síðan sakamálarannsókn, fyrst í Keflavík og svo síðar í Reykjavík. Til að byrja með skilaði hún litlu sem engu. Það fór þó svo að fyrir rest að nokkur ungmenni dæmd fyrir aðild að hvarfi hans. Aldrei fannst þó líkið.

Bræðurnir sem hurfu

Síðar kom í ljós að víða var pottur brotinn við rannsókn málsins og það fólk sem var dæmt að öllu líkindum saklaust. Enda er nánast öruggt að þeir sem játa á sig morð geta þá gefið trúlega skýringu á því hvað var gert við líkamsleifar þess myrta, sérstaklega þegar um fleiri en einn geranda er að ræða. Það vantaði stórlega upp það við rannsókn málsins.

Í upphafi rannsóknarinnar var auglýst eftir mann í brúnum leðurjakka sem sást í Hafnarbúðinni kvöldið örlagaríka og fékk þar að nota síma. Gengið var út frá því að þessi maður hefði verið að hringja í Geirfinn þar sem það passa við þá tímasetningu á símtali því er barst á heimili Geirfinns eftir að hann kom heim úr fyrri ferðinni í Hafnarbúðina.

Eins var auglýst eftir manni sem komið hafði á smurstöð Þórshamars og Gistiheimilið Stórholti á Akureyri 26. nóvember. Maður sá hafði verið á rauðum Fiat 600 á G númeri. Líka var auglýst eftir manni sem sást á spjalli við Geirfinn í stiga skemmtistaðarins Klúbbsins tveim dögum fyrir hvarfið. Lýsing á útliti þessara þriggja mann og klæðnaði voru allar á svipaða leið en aldrei gáfu þeir sig fram og hefur því löngum verið talið að þessi þrír eftirlýstu einstaklingur séu einn og sami maðurinn.

Geirfinnur var heilsuhraustur, fremur fáskiptinn og dulur. Góður starfskraftur og flinkur tækjastjórnandi. Þegar hann hvarf var hann klæddur í bláa hettuúlpu, grænköflótta skyrtu, grænleitar flauelsbuxur og brúna uppháa skó með rennilás að innanverðu. Hann var með reykjarpípu á sér og tóbaksbréf.

Ekki verður farið nánar út í þá sakamálarannsókn sem var í kringum hvarfið í þessum pistli. Runólfur Kristberg Einarsson bróðir Geirfinns var fæddur árið 13. maí 1938.

Þann 19. júní 1941 fór hann ásamt systur sinni og og fleiri börnum upp í fjalla til föður þeirra sem vann þar við að gera við reiðgötur sem lágu yfir í næsta dal ásamt fleiri mönnum. Voru krakkarnir að fær þeim nesti. Þegar menn höfðu notið næringar sinnar héldu krakkarnir heim á leið.

Á leiðinni þurfti að fara yfir gilskorning og þegar yfir hann var komið vildi Runólfur snúa aftur til föður síns og varð svo úr. Þegar karlar komu aftur heim á bæ um kvöldið eftir gott dagsverk höfðu þeir ekkert orðið varir við Runólf. Hófst þá umfangsmikil leit en aldrei fannst neitt nema annar skórinn hans. Aldrei hefur komið í ljós hvað varð um hann með neinni vissu en gengið var útfrá því að hann hafi fylgt gilinu á enda og hrapað þar fyrir björg í sjó fram.

Skömmu fyrir hvarfið hafði Önnu og Einari foreldrum hans fæðst drengur sem ekki var búið að skýra og hlaut hann nafn bróður síns,“ skrifar Bjarki.


Hér má lesa um fleiri mannshvörf sem Bjarki hefur fjallað um. Hann hvetur jafnframt alla sem hafa upplýsingar um mannshvörf á Íslandi að hafa samband með tölvupósti á póstfangið mannshvarf@gmail.com og heitir hann fullum trúnaði. Bjarki óskar jafnframt eftir því að þeir sem viti um fleiri mannshvörf á Íslandi komi áleiðis ábendingu til hans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það
Pressan
Fyrir 2 klukkutímum

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona
Fréttir
Fyrir 6 klukkutímum

Indriði læknir þreyttur á vottorðabákninu – „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum“

Indriði læknir þreyttur á vottorðabákninu – „Ég endurnýja sömu sjúkraþjálfarabeiðnina sem sjúklingur hafði fengið í 10 ár í röð fyrir sama bakverkjavandanum“
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Pressan mikil á þremur liðum í þriðju umferð

Pressan mikil á þremur liðum í þriðju umferð