Það er fátt ljúfara en friðsæll göngutúr á björtum sumardegi. En þegar garg kríunnar heyrist er ljóst að maður hefur stigið inn á no-go svæði. Þær koma að manni, stundum 4-5 saman, með augnarráði sem segir „Drullaðu þér burt eða ég punktera á þér hauskúpuna“, og það er best að hlýða. Þetta eru jú friðuð dýr.
Hér eru ryk-og bitmý sett undir sama hatt. Þetta eru dýr sem svívirða persónulegt rými manns, fljúga inn í eyru, upp í nef og munn, jafnvel inn í augun á okkur. Flugnafælur og bitsmyrsl virka illa. Það þarf þolinmótt fólk með þykkan skráp til að búa við Mývatn og önnur stöðuvötn þar sem vargurinn ræður ríkjum.
Þetta þekkja aðeins þeir sem hafa gaman að því að dorga. Maður stendur við bakkann og vonast til að fá eitthvað feitt í soðið en þá bítur ekkert á nema endalausir marhnútar. Þessi skepna er svo ljót að hún minnir helst á eitthvað úr hugarheimi H.P. Lovecraft og vitaskuld hefur enginn lyst á henni.
Þessir fuglar halda hópinn í gengjum og leggja undir sig heilu túnin. Ef maður vogar sér að koma nálægt þeim þá hvæsa þær á mann eins og villikettir svo maður hrökklast burt. Þegar klíkan loks heldur á brott þá er grænn gæsaskítur út um allt.
Margir eru haldnir köngulóa-fælni, sennilega vegna þess að þessi dýr líta ekkert sérstaklega huggulega út. Það er þó ekki útlitið sem gerir þær pirrandi heldur vefurinn. Hver þekkir það ekki að vakna í sumarbústað, labba út á pall og lenda í köngulóarvef. Maður fær hann upp í sig, í hár og skegg og allir halda að maður sé að fá eitthvað kast. Þær mega þó eiga það að halda flugunum í skefjum.
Mávurinn getur verið árásargjarn við varp en það er ekki ástæðan fyrir að hann kemst á listann. Allir foreldrar þekkja hversu leiðinlegir mávar eru við tjarnir þegar farið er að „gefa öndunum brauð.“ Þeir eru frekir ruddar sem stela brauðinu af öndunum og álftunum. Það er til lausn við þessum vanda, það er að blaka höndunum eins og fugl. Þá fara mávarnir en aðrir fuglar sitja eftir. Verst hvað maður lítur kjánalega út fyrir vikið.
Þetta er vandamál sem íbúar í eldri húsum þekkja vel. Rottan kemst á listann eingöngu vegna hversu viðbjóðsleg hún er. Þetta nagdýr sem lifir í skolpi, ber með sér flær og sjúkdóma, eyðileggur innanstokksmuni og getur orðið jafn stór og köttur, á sér engar málsbætur. Ratatouille breytti engu, rottur eru ógeð.
Fjöldi geitunga á sumrin fer að miklu leyti eftir veðráttunni og stundum vildi maður því óska þess að það væri kaldara hér á Íslandi. Þeir hafa ákaflega óþægilega nærveru, jafnvel snemmsumars þegar þeir eiga að vera meinlausir. Í ágúst eru karlarnir reknir úr búunum og missa tilganginn í lífinu. Þá er geitungurinn eins og fullur og nýskilinn karl í leit að slagsmálum.
Minkurinn er eitt alræmdasta meindýrið á landinu. Hann veiðir bæði fugla og fisk og virðir engin mörk. Hann hefur verra orðspor en tófan, sennilega af því að hann er útlendingur. Þegar minkur sést fara heykvíslarnar á loft líkt og í sögunni um Frankenstein og skrímslið hans.
Fátt er jafn viðbjóðslegt og að kveikja ljós í baðherbergi og sjá þessi kvikyndi skjótast inn í einhverjar smugur á veggnum eða undir klósettið. Maður getur ekki tekið augun af gólfinu og finnst eins og staðurinn sé óíbúðarhæfur, jafnvel þó maður viti vel að þær eru sárameinlausar. Eitur virkar í nokkrar vikur en síðan kemur þetta alltaf aftur. Það eina sem virkar til að losna við þetta er að lofta vel.