Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Haft er eftir Ingólfi Bender, aðalhagfræðingi Samtak iðnaðarins, að neikvæðar fréttir af stöðu efnahagsmála geti dregið úr einkaneyslu og fjárfestingum heimila og fyrirtækja. Í sama streng tekur Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, og segir að bætt lífskjör á undanförnum árum hafi að miklu leyti verið sótt til ferðaþjónustunnar.
Eins og kunnugt er glíma Icelandair og WOW við ákveðin vandamál þessar vikurnar og hefur umræðan um mál flugfélaganna verið mikil. Þetta getur smitast út í samfélagið og orðið til þess að fólk fer að halda að sér höndunum. Ekki fegrar það fréttirnar um vanda flugfélaganna að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa fundað sérstaklega um stöðu þeirra.
Morgunblaðið hefur eftir Andrési Jónssyni, almannatengli, að við aðstæður sem þessar sé mikilvægt að huga að væntingastjórnun. Fólk sé ekki vant að þurfa að slá á væntingar en þær skapi að miklu leyti raunveruleikan sem þarf að takast á við þegar staðan verður slæm.