fbpx
Föstudagur 19.apríl 2019

DV - Frjáls og óháður miðill

Fréttir

Gætu þurft að skilja Ernu eftir og fara úr landi í lögreglufylgd: „Þau eru miður sín“

Auður Ösp
Miðvikudaginn 4. júlí 2018 20:00

Ljósmynd/Esther Ýr Þorvaldsdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Albönsku hjónin Nazife og Erion þurfa nú að velja milli þess að skilja 14 mánaða dóttur sína, Ernu, eftir foreldralausa á Íslandi eða taka hana með sér, ríkisfangslausa til annars lands. Dómsmál sem höfðað hefur verið fyrir hönd stúlkunnar gæti reynst fordæmisgefandi fyrir þau börn hælisleitenda hér á landi. Á heimasíðu undirskriftasöfnunar sem komið hefur verið á fót  er mál Ernu litlu sagt snúast um „misnotkun á kennitölukerfi þjóðskrár þar sem börnum af erlendum uppruna sem fædd eru á Íslandi sé mismunað með þeim afleiðingum að aðrar ríkisstofnanir mismuna þeim einnig og brjóta á réttindum þeirra.“

Á síðu undirskriftasöfnunarinnar er saga Ernu rakin. Erna Reka fæddist á Íslandi í apríl 2017. Foreldrar hennar höfðu verið við vinnu hérlendis og reynt að endurnýja atvinnuleyfi sitt en fengið neitun rétt fyrir fæðingu hennar. Þjóðskrá gaf henni kennitölu á utangarðsskrá, en þó með heimilisfang á landinu.

„Lögmaður Ernu mótmælti notkun þessarar tegundar kennitölu og hefur lagt málið fyrir dóm. Þjóðskrá ákvað að breyta skráningu á heimilisfangi Ernu og flutti það úr landi án þess að upplýsa foreldra hennar eða lögmann um breytinguna. Þessi ákvörðun þjóðskrár breytti stöðu Ernu þannig hún hefur ekki lengur búsetu á landinu og er því búið að svipta hana öllum réttindum. Vegna þessarar ákvörðunar þjóðskrár hefur Útlendingastofnun lýst því yfir að Erna, sem aldrei hefur stigið fæti út fyrir landsteinana, búi ekki hérlendis og megi því vísa henni úr landi ásamt foreldrum hennar.“

kemur jafnframt fram í textanum en meðferð málsins fyrir dómi hófst í desember síðastliðnum og mun úrskurður falla í nóvember.

Ljósmynd/Skjáskot af Vísi.is
Ljósmynd/Skjáskot af Vísi.is

 Í maí síðastliðnum staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja þeim Nazifi og Erion um dvalarleyfi. Lögfræðingur fjölskyldunnar Clausia Ashonie Wilsin sótti í kjölfarið um frestun réttaráhrifa þar sem að mál Ernu verður ekki tekið fyrir fyrr en í nóvember, líkt og fyrr segir.

Ekki til samkvæmt Þjóðskrá

Esther Ýr Þorvaldsdóttir, vinkona fjölskyldunnar tjáir sig um málið í opinni færslu á facebook:

„Útlendingastofnun ætlar að nýta sér þetta klúður hjá Þjóðskrá og senda foreldra hennar úr landi áður en þau ná að leiðrétta mistökin í nóvember. Þessi mistök gera það að verkum að Erna lítur út fyrir að vera einfaldlega ekki til! Erna fæddist á Íslandi og hefur aldrei nokkurn tímann stigið fæti út fyrir landsteinana.

Ljósmynd/Esther Ýr Þorvaldsdóttir
Ljósmynd/Esther Ýr Þorvaldsdóttir

Erna er ekki með ríkisborgararétt í Albaníu (né heldur í nokkru öðru landi) svo ef foreldrum hennar er vísað úr landi þurfa þau að velja milli þess að skilja Ernu eftir foreldralausa á Íslandi eða taka hana með sér, ríkisfangslausa, til einhvers annars lands – og þar af leiðandi tapa málinu gegn Þjóðskrá í nóvember.“

Gallaður úrskurður

Í gær hafnaði síðan kærunefnd útlendingamála beiðni þeirri Nazifi og Erion um frestun réttaráhrifa. Þau verða því send úr landi og verða í farbanni í tvö ár. Í samtali við fréttir Stöðvar 2 í gærkvöldi bendir lögfræðingurinn Clausia Ashonie Wilsin á þá staðreynd að í úrskurði kærunefndarinnar er hvergi minnst á Ernu og réttarstöðu hennar, heldur aðeins foreldrana. Segir hún úrskurðinn „gallaðan.“

Eftir stendur að Erna getur ennþá sótt rétt sinn, en það geta foreldrar hennar ekki. Esther segir að við þeim blasi nú erfið ákvörðun:

„Útlendingastofnun hefur neytt foreldrana til þess að velja á milli þess að skilja Ernu eina eftir á Íslandi eða taka hana með og þar með fyrirgera rétti hennar á réttlátri dómsmeðferð í nóvember. Þau er miður sín og eiga erfitt að tjá sig um næstu skref. Þau þrá hvað mest að gefa dóttur sinni gott líf hvað sem það kostar en því miður er engin leið að vita hvenær lögreglan mun banka upp á og foreldrunum gert að yfirgefa landið. Lögfræðingur þeirra ætlar að hafa samband við barnavernd í fyrramálið til þess að tryggja það að Erna fái vernd ef hún verður aðskilin frá foreldrum sínum,“ segir Esther og bendir jafnframt á eftirfarandi: „Börn sem fæðast á Íslandi og hafa átt hér óslitið fasta búsetu má ekki vísa úr landi en þessi mistök gera það að verkum að Erna er skráð eins og hún búi erlendis. Hún er fyrst þessara barna til að fá gjafasókn og því mikilvægt fyrir öll þessi börn að mál Ernu fái að komast fyrir rétt.“

Uppfært 6.7.17:

Útlendingastofnun hefur óskað þess að koma á  á framfæri eftirfarandi athugasemdum varðandi frétt DV um málið:

Í máli fjölskyldunnar liggja fyrir ákvarðanir á tveimur stjórnsýslustigum um að fjölskyldunni beri að yfirgefa landið. Útlendingastofnun synjaði umsóknum foreldranna um dvalarleyfi hér á landi og hefur kærunefnd útlendingamála staðfest ákvarðanirnar. Þrátt fyrir að ekki hafi verið tekin sérstök ákvörðun í máli barnsins liggur fyrir að það hefur ekki heimild til að dveljast á landinu og ber að yfirgefa landið með foreldrum sínum.

Það er ekki rétt að barnið sé ríkisfangslaust. Í lögum um albanskan ríkisborgararétt er skýrt kveðið á um að barn sem fæðist albönskum foreldrum fái sjálfkrafa albanskan ríkisborgararétt (sjá 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga um albanskan ríkisborgararétt nr. 8389). Þetta gildir líka um börn albanskra foreldra sem fæðast í öðru landi en Albaníu.

Það er heldur ekki rétt að dómsmál sem foreldrarnir höfðuðu í nafni barnsins verði sjálfhætt yfirgefi barnið landið. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar og kærunefndar útlendingamála um að synja dvalarleyfisumsóknum þeirra var þvert á móti komist að þeirri niðurstöðu að dómsmálið væri ekki þess eðlis að nauðsynlegt væri að þau dveldust hér á landi meðan það er til meðferðar hjá dómstólum. Kærunefnd útlendingamála hefur þegar hafnað beiðni um að fresta réttaráhrifum þar til bera megi þá ákvörðun undir dómstóla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bjóða heimilislausum í páskamat á annan í páskum: „Það hafa margir góðir komið að þessu verkefni“

Bjóða heimilislausum í páskamat á annan í páskum: „Það hafa margir góðir komið að þessu verkefni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Máni er 11 ára með elliglöp og búinn að vera týndur í sólarhring – Hundaeigandi sendir neyðarkall

Máni er 11 ára með elliglöp og búinn að vera týndur í sólarhring – Hundaeigandi sendir neyðarkall
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Aldrei fleiri teknir fyrir akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna

Aldrei fleiri teknir fyrir akstur undir áhrifum ávana-og fíkniefna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Frábær saga af Guðna forseta: „Sumt í lífinu er of fallegt til að deila því ekki“

Frábær saga af Guðna forseta: „Sumt í lífinu er of fallegt til að deila því ekki“