fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fréttir

5 langdregnar hörmungar

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 2. júní 2019 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Málþóf Miðflokksins vegna þriðja orkupakkans heldur áfram og sér ekki fyrir endann á því. Stjórnarflokkarnir veigra sér við að beita svokölluðu kjarnorkuákvæði til að stöðva þófið og knýja fram atkvæðagreiðslu. Sennilega til að þeir lendi ekki sjálfir í því í framtíðinni. Því sitjum við uppi með óstarfhæft þing og endalausar ræður um ekki neitt. Inga Sæland sagði málþófið vera „ofbeldi sem stuðli að vanlíðan.“ Allir eru þreyttir, bæði þeir sem taka þátt og þeir sem þurfa að hlusta. Hér eru fimm hörmungar í sögunni sem drógust á langinn.

 

Umsátrið um Stalíngrad

Umsátrið um Stalíngrad var ein mannskæðasta orrusta sögunnar. Um tvær milljónir hermanna og óbreyttra borgara féllu í valinn þá rúmu fimm mánuði sem hún stóð yfir. Frá ágúst 1942 til febrúar 1943. Sovétmenn sneru taflinu á austurvígstöðvunum sér í vil þennan vetur en fórnarkostnaðurinn var hár. Fæstir féllu fyrir byssukúlum eða sprengjum. Flestir frusu eða sultu í hel.

Hungursneyðin í Írlandi

Árið 1845 kom upp sjúkdómur í kartöfluplöntunni á Írlandi sem um þriðjungur þjóðarinnar reiddi sig á. Í kjölfarið fylgdi átta ára hungursneyð en nýlenduherrarnir Bretar komu Írum ekki til hjálpar. Ein og hálf milljón svalt í hel í heimalandinu og svipaður fjöldi flúði land. Aðallega til Bretlands, Ameríku og Ástralíu. Íbúafjöldinn hefur aldrei náð sér á strik. Þegar hungursneyðin skall á bjuggu rúmlega átta milljónir í landinu en sú tala helmingaðist á örfáum árum. Í dag búa um fimm milljónir í Írlandi.

Móðuharðindin

Þann 8. júní árið 1783 hófst gos í Lakagígum í Vestur-Skaftafellssýslu sem lauk ekki fyrr en í febrúar ári seinna. Eitruð aska barst yfir allt. Bændur brugðu búi, búfénaður drapst og um 10 þúsund Íslendingar sultu í hel í hamförunum sem fengu nafnið Móðuharðindin. Brennisteinsmökkurinn barst út í gufuhvolfið og með vindum langt út fyrir landsteinana. Inngeislun sólar minnkaði og hitastig á norðurhveli lækkaði um hálfa gráðu. Talið hefur verið að þetta hafi valdið uppskerubresti á meginlandi Evrópu sem var upptakturinn að frönsku byltingunni.

100 ára stríðið

100 ára stríðið, á milli Englendinga og Frakka, er reyndar rangnefni. Það var ekki eitt stríð heldur nokkur og auk þess varði það 116 ár, frá 1337 til 1453. Eins og svo oft á miðöldum snerist stríðið ekki um hugmyndafræði heldur lönd og titla því að Englandskonungar gerðu tilkall til frönsku krúnunnar. Óljóst er hversu mikið mannfallið var, en það er talið hafa verið í kringum þrjár milljónir. Frakkar unnu stríðið og vísar að þjóðerniskennd vöknuðu meðal fólks í báðum löndum.

Svarti dauði

Svarti dauði er bakteríusýking sem berst með rottum og veldur kýlapest með miklum sótthita og uppköstum með blóði. Sjúklingur lifir aðeins í örfáa daga. Sjúkdómurinn barst frá Asíu til Evrópu um miðja 14. öld og tók um 75 milljónir mannslífa. Mannfjöldi Evrópu náði sér ekki á strik í eina og hálfa öld og ofsóknir gegn gyðingum voru fylgifiskur. Svarti dauði kom hins vegar ekki til Íslands fyrr en árið 1402. Svarti dauði hefur reglulega komið upp síðan en í dag eru til lyf við sjúkdómnum og aldrei hefur hann tekið jafn marga og í faraldrinum mikla.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út

Spáir ekki dropa úr lofti í Reykjavík fyrr en í maí – Sumarið lítur sérstaklega vel út
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí

Stofna góðgerðarfélag til minningar um Þuríði Örnu – Blásið til tónleikaveislu 1. maí