„Ástandið verður sífellt hættulegra,“ sagði Morawiecky á fréttamannafundi í vesturhluta Póllands. Hann sagði að Wagnerliðar muni mjög líklega dulbúast sem belarúskir landamæraverðir og hjálpa ólöglegu förufólki að komast inn í Pólland og þannig raska jafnvæginu í Póllandi.
Hann sagði að þetta geti jafnvel endað með að Wagnerliðar dulbúist sem förufólk. „Þeir munu mjög líklega reyna að komast til Póllands með því að þykjast vera förufólk og það eykur enn á hættuna,“ sagði hann.
Pólverjar hafa ítrekað lýst yfir áhyggjum af straumi Wagnerliða til Belarús en þeir hafa hópast þangað eftir misheppnaða valdaránstilraun leiðtoga þeirra, Yevgeny Prigozhin, í júní.
Pólverjar hafa brugðist við þessum liðsafnaði Wagner í Belarús með því að flytja að minnsta kosti 1.000 hermenn að landamærunum við Belarús.