
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað tryggingafélagið VÍS og Faxaflóahafnir af skaðabótakröfu hafnsögumanns sem hlaut varanlega örorku vegna meiðsla sem hann varð fyrir í starfi sínu. Var hann um borð í dráttarbát sem kom að því að lóðsa olíuskip að bryggju í einni af höfnum Faxaflóahafna. Varhugaverðar aðstæður sköpuðust og nauðsynlegt reyndist að sigla dráttarbátnum utan í olíuskipið til að koma í veg fyrir að það endaði á brimbrjóti við höfnina, sem tókst en við hnykk sem kom á dráttarbátinn við þetta slasaðist hafnsögumaðurinn. Í sýknunni vísar dómurinn meðal annars til menntunar hafnsögumannsins í skipstjórn og reynslu hans af störfum sem hafnsögumaður og hann hafi þar af leiðandi átt að vera viðbúinn því sem gerðist. Krafðist maðurinn bóta úr ábyrgðartryggingu Faxaflóahafna hjá VÍS en hafði áður fengið bætur frá tryggingafélaginu úr slysa- og launþegatryggingum.
Atvikið átti sér stað í febrúar 2020 en það hefur verið afmáð úr dómnum til hvaða hafnar olíuskipið var að sigla en Faxaflóahafnir reka alls níu hafnir; sex í Reykjavík auk hafnanna á Grundartanga, Akranesi og í Borgarnesi.
Fram kemur í dómnum að hafnsögumaðurinn búi að menntun til skipstjórnarréttinda og langri starfsreynslu við skipstjórn. Hann hafi um árabil starfað við sjómennsku, þar með talið stýrimennsku og verið skipstjóri hérlendis og erlendis, og hafi síðan verið ráðinn til starfa sem hafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum, þar sem hann starfaði þegar atvikið átti sér stað.
Í þetta skipti gegndi hafnsögumaðurinn stöðu háseta um borð í dráttarbátnum en um borð voru að auki skipstjóri og vélstjóri.
Ítarlegar lýsingar eru í dómnum á því verklagi sem viðhaft var við að sigla olíuskipinu til hafnar. Auk umrædds dráttarbáts kom annar dráttarbátur að verkefninu og hafnsögumaður fór um borð í olíuskipið til að leiðbeina skipstjóra skipsins og stýra aðgerðum.
Segir í dómnum að fyrir liggi að hraði olíuskipsins, eftir að dráttartaug var komin út í það úr hinum dráttarbátnum, hafi verið of mikill. Það sé ekki ágreiningur um að um tíma hafi skapast varhugaverðar aðstæður þar sem olíuskipið hafi stefnt í átt að brimbrjótnum við höfnina og hafi verið komið nokkuð nálægt honum þegar verst lét. Við þessar aðstæður hafi hafnsögumaðurinn sem var um borð í olíuskipinu fyrirskipað að dráttarbáturinn, sem maðurinn sem höfðaði málið var um borð í, skyldi ýta á bóg olíuskipsins til að rétta það af og breyta stefnunni til bakborða. Í kjölfarið hafi reynst nauðsynlegt að bregðast nokkuð skjótt við. Hafi dráttarbáturinn ýtt endurtekið á bóg olíuskipsins til að breyta stefnu þess og hafi verið nauðsynlegt að sigla dráttarbátnum á milli olíuskipsins og brimbrjótsins.
Segir enn fremur að af gögnum málsins verði ráðið að skipstjórar beggja dráttarbátanna í verkefninu hafi þurft að hafa hraðar hendur í þeim kringumstæðum sem upp komu.
Við ásiglingar dráttarbátsins á bóg olíuskipsins hafi komið hnykkir á bátinn og í eitt þeirra skipta hafi hafnsögumaðurinn, sem sat á bekk fyrir aftan skipstjórann, kastast fram fyrir sig og slasast við það á hægri hendi.
Eftir að verkefni bátsins við aðstoða við innsiglingu olíuskipsins í höfnina lauk tjáði hafnsögumaðurinn skipstjóranum að hann fyndi til í höndinni en slysið var ekki formlega skráð fyrr en um tveimur vikum síðar þegar hafnsögumaðurinn tilkynnti um það til Faxaflóahafna.
Hann leitaði læknis og var um tíma óvinnufær en hann þurfti að gangast undir aðgerð vegna rifu í liðbandi í úlnliðnum, sem gerð var tveimur árum eftir slysið. Send var í kjölfarið tilkynning um slysið til VÍS og Sjúkratrygginga Íslands og Faxaflóahafnir tilkynntu Rannsóknarnefnd samgönguslysa um það.
Samkvæmt matsgerð frá 2024 hlaut hafnsögumaðurinn varanlegan miska og 10 prósent varanlega örorku. Greiddi VÍS honum í kjölfarið bætur úr slysatryggingu siglingalaga og launþegatryggingu, samtals um 2,5 milljónir króna. Hann krafðist einnig bóta úr ábyrgðartryggingu Faxaflóahafna en því var hafnað og höfðaði hann í kjölfarið málið.
Hélt hafnsögumaðurinn því fram að hann hefði slasast vegna gáleysis skipstjórans þar sem hann hefði siglt dráttarbátnum á of mikilli ferð á olíuskipið. Verklagsreglum og forvörnum af hálfu Faxaflóahafna hafi jafnframt verið ábótavant. Gáleysi skipstjórans og gáleysisleg vanræksla Faxahlóahafna, við að tryggja öryggi á vinnustaðnum, hafi aukið líkurnar á líkamstjóni sem hann hafi á endanum orðið fyrir. Lagði hafnsögumaðurinn meðal annars áherslu á að skipstjórinn hafi ekki gætt að því að dráttarbáturinn var þannig útbúinn að það tók gangbúnað hans nokkrar sekúndur að svara stillingum á stjórntækjum og breytingum sem gerðar væru á þeim.
Faxaflóahafnir og VÍS byggðu einkum á því að hafnsögumanninum hefði ekki tekist að sanna að slysið og afleiðingar þess mætti rekja til saknæmrar háttsemi starfsmanna fyrrnefnda aðilans. Framburður hans um tildrög líkamstjónsins hafi þar að auki verið misvísandi. Um hafi verið að ræða óhappatilvik sem hafnsögumaðurinn bæri helst ábyrgð á sjálfur og vísaði til þess að vegna menntunar sinnar og reynslu, þar með talið starfsreynslu hjá Faxaflóahöfnum og á umræddum dráttarbát, hafi hann átt að vita að hnykkur gæti komið á bátinn þegar verið væri að ýta skipi með þessum hætti. Var því alfarið hafnað að skipstjórinn eða aðrir starfsmenn Faxaflóahafna hafi sýnt af sér gáleysi í málinu.
Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur er ekki fallist á þá röksemd lögmanns hafnsögumannsins að umrætt atvik teljist vera sjóslys eða sjóatvik í skilningi laga. Því hafi ekki mátt gera ráð fyrir að varanlegar afleiðingar yrðu og að Faxaflóahöfnum hafi ekki borið skylda til að tilkynna atvikið þegar í stað til Rannsóknarnefndar samgönguslysa. Gögn málsins, þar á meðal frásögn skipstjóra hins dráttarbátsins dugi ekki til að slá því föstu að sú hætta sem var til staðar vegna nálægðar olíuskipsins hafi verið tilkynningarskylt sjóatvik í skilningi laga um rannsóknir samgönguslysa.
Dómurinn segir að samkvæmt lögum hafi átt að skrá slysið í dagbók dráttarbátsins. Skipstjórinn á bátnum hafi staðfest að hafnsögumaðurinn hafi tjáð sér að verkefninu loknu að hann fyndi til í hendinni. Þyki því í ljósi þess og annarra gagna málsins nægilega sannað að hafnsögumaðurinn hafi orðið fyrir líkamstjóni við höggið sem kom á dráttarbátinn við það að sigla utan í olíuskipið.
Það sé hins vegar ósannað að í umrætt sinn hafi skipstjóri dráttarbátsins sýnt af sér gáleysi. Það þyki staðfest í gögnum málsins og framburðum fyrir dómi að það sé liður í starfi um borð í dráttarbát að vera standklár og viðbúinn þeim höggum sem slíkir bátar verði reglulega fyrir. Það sé liður í áralangri sjómennskureynslu hafnsögumannsins að vita hvar hann ætti að staðsetja sig til að verjast höggum, eða sjólagi eftir atvikum. Þegar atvikið varð hafi hann unnið um borð í dráttarbátum Faxaflóahafna í tvö ár og mátt vera ljóst að von væri á höggum í daglegu starfi á dráttarbát. Þyki það blasa við að almennt í starfsemi dráttarbátsins og einkum í aðstæðunum í umrætt sinn hafi skipverjar mátt vita að von væri á jafnvel harkalegum ákomum. Í ljósi alls þess hafi hafnsögumaðurinn sjálfur borið ábyrgð á því að tryggja handfestu sína og koma þannig í veg fyrir að verða fyrir hugsanlegu slysi.
Sömuleiðis tekur dómurinn ekki undir að verklagsreglum og forvörnum af hálfu Faxaflóahafna hafi verið ábótavant. Faxaflóahafnir og VÍS voru því sýknuð af kröfu hafnsögumannsins um skaðabætur úr ábyrgðartryggingunni.
Dóminn í heild er hægt að nálgast hér.