fbpx
Miðvikudagur 07.janúar 2026
Fréttir

Stjórnarþingmaður segir símabann í skólum gagnslaust – Borgarfulltrúi ekki sammála – „Jákvæðara að unglingar fari í göngutúr til að vera í símanum“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 6. janúar 2026 10:36

Pawel Bartoszek þingmaður og Magnea Gná Jóhannsdóttir borgarfulltrúi eru ekki sammála um gagnsemi símabanns í grunnskólum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikið hefur verið rætt um síma- og aðra snjalltækjanotkun barna og ungmenna og hafa sum sveitarfélög bannað slík tæki í grunnskólum eða sett takmarkanir á notkun þeirra. Hefur menntamálaráðherra lagt fram frumvarp til að samræma slíkar reglur á landsvísu. Þingmaður úr stjórnarliðinu, Pawel Bartoszek þingmaður Viðreisnar, virðist hins vegar ekki telja mikið gagn af slíkum reglum en hann segist hafa spurnir af því að nemendur nýti hvert tækifæri til að komast af skólalóðinni og í síma eða annað snjalltæki. Borgarfulltrúi lýsir sig hins vegar ósammála þingmanninum og telur bann gagnlegt en gera verði ráðstafanir til að minnka fíkn barnanna í tækin.

Pawel skrifar á Facebook:

„Fréttir úr símalausri unglingadeild: Krakkarnir nota nú hverja lausa stund til að fara af skólalóð, heim, eða í einhverja aðra byggingu nálægt bara til að komast á netið. Gangarnir og félagsmiðstöðvar standa tómar. Glæsileg niðurstaða og að öllu leyti ófyrirsjáanleg.“

Göngutúr

Pawel er fyrrverandi borgarfulltrúi í Reykjavík og er þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður. Því er ekki ólíklegt að umræddur grunnskóli sé í Reykjavík. Það finnast ekki í fljótu bragði upplýsingar um hverjar reglurnar eru um síma- og aðra snjalltækjanotkun í grunnskólum borgarinnar. Magnea Gná Jóhannsdóttir borgarfulltrúi Framsóknarflokksins andmælir þingmanninum og segist efast um að þetta sé raunin í öllum skólum þar sem slíkar reglur gildi en gera verði ráðstafanir til að vega uppi á móti áhrifum af takmörkununum:

„Veit ekki hvaða skóla þú átt við. Efast um að þetta sé raunin þvert á skóla sem eru með símafrí. Það þarf auðvitað að tryggja að annað afþreyingarefni sé til staðar t.a.m. spil, borðtennisborð o.s.frv. sem getur komið í staðinn fyrir snjallsímann. Það verður þó kannski að teljast jákvæðara að unglingar fari í göngutúr til að vera í símanum í stað þess að fara beint úr tíma í símann en það er líka til marks um hversu ávanabindandi þessi tæki (öppin í þeim) eru – sem er stórt viðfangsefni þegar kemur að andlegri heilsu og félagsfærni barna.“

Athygli vekur að systir þingmannsins tekur undir með Magneu með því að líka við athugasemd hennar.

Guðmundur Ingi Kristinsson mennta- og barnamálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um samræmingu regla um síma- og snjalltækjanotkun í skólum á landsvísu en það er til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Hvort Pawel sé með þessari færslu að gefa til kynna efasemdir um frumvarpið er þó óljóst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Heiðursmorð í Hollandi: Faðir og synir hans fengu þunga fangelsisdóma

Heiðursmorð í Hollandi: Faðir og synir hans fengu þunga fangelsisdóma
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Innrás á heimili á Norðurlandi vestra – Bað manninn ítrekað um að fara

Innrás á heimili á Norðurlandi vestra – Bað manninn ítrekað um að fara
Fréttir
Í gær

Lögregla skoðar hvort piltarnir hafi ætlað að ógna öðrum með skotvopnunum

Lögregla skoðar hvort piltarnir hafi ætlað að ógna öðrum með skotvopnunum
Fréttir
Í gær

Guðlaugur Þór fer ekki fram í borginni – Svona útskýrir hann ákvörðun sína

Guðlaugur Þór fer ekki fram í borginni – Svona útskýrir hann ákvörðun sína
Fréttir
Í gær

Nágranni frá helvíti býr enn í Bríetartúni – Tveir sjúkrabílar og fjórir lögreglubílar komu um síðustu helgi

Nágranni frá helvíti býr enn í Bríetartúni – Tveir sjúkrabílar og fjórir lögreglubílar komu um síðustu helgi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einstök boðsferð til ævintýraheimsins Oz

Einstök boðsferð til ævintýraheimsins Oz