

Róbert, sem var bæjarstjóri í Vogum og síðar Grindavík, sækist eftir 1. sætinu í leiðtogavali Viðreisnar í Reykjavík fyrir sveitastjórnarkosningarnar í vor. Í grein sinni gagnrýnir Róbert það sem hann telur óeðlilega þunga og dýra stjórnsýslu Reykjavíkurborgar, þar sem allir borgarfulltrúar eru í fullu starfi.
Bendir hann á að Reykjavík sé eina höfuðborgar Norðurlandanna þar sem allir borgarfulltrúar eru í 100 starfi hjá borginni, en kostnaður við þetta nemur tæpum 700 milljónum króna á ári.
„Það er upplifun borgarbúa að stjórnsýsla og ákvarðanataka hjá Reykjavíkurborg sé of flókin, að of mikill tími borgarstjórnar fari mál sem skipta litlu, ákvarðanir taki langan tíma og kostnaður sé of mikill. Þessi upplifun borgarbúa endurspeglast í könnunum sem sýna að traust til borgarstjórnar er undir 10%. Þetta þarf ekki að vera svona,“ segir hann.
Róbert segir að sem leiðtogi Viðreisnar í borgarstjórn ætli hann sér að nýta þekkingu sína og reynslu til að einfalda kerfið, bæta ákvarðanatöku og endurvekja traust.
„Ég hef mikla reynslu sem bæjarstjóri og ráðgjafi í opinberri stjórnsýslu, en líka úr atvinnulífinu og hef menntun í góðum stjórnarháttum. Þessi reynsla og þekking mun skipta máli við að endurskipuleggja þungt og ósveigjanlegt stjórnkerfi.“
Róbert nefnir að í hinum höfuðborgum Norðurlanda sé meirihluti borgarfulltrúa í hlutastarfi og sinni öðrum störfum samhliða.
„Lykilaðilar, eins og borgarstjóri og borgarráðsfulltrúar eru í fullu starfi, sem eru 5% til 20% af fjölda fulltrúa. Á þann hátt verður skýrari lína milli pólitískrar stefnu, framkvæmdar og rekstrar. Að auki eru átta varaborgarfulltrúar í Reykjavík í 70% starfi, á launum sem eru hærri en meðallaun í landinu. Samtals eru því 31 fulltrúi sem vinna ekki við annað en að sitja í borgarstjórn,“ segir hann.
Veltir hann því fyrir sér hvort það sé ástæða þess að hver borgarstjórnarfundur tekur 7-12 tíma og borgarbúar tengi lítið við það sem er að gerast.
„Alltof mikið af fólki sem þarf að koma sínu að. Einu rökin sem ég hef heyrt fyrir þessu fyrirkomulagi í Reykjavík er að borgarstjórn ber sig saman við Alþingi, en ekki önnur sveitarfélög. Það er misskilningur sem þarf að leiðrétta. Reykjavíkurborg á meira sameiginlegt með Árborg en Alþingi.“
Róbert segir að það sé ekki einungis dýrt að vera með 31 borgarfulltrúa á launum, heldur sé það líka slæmt út frá góðum stjórnarháttum. Þannig myndu eigendur hlutafélaga aldrei samþykkja að öll stjórnin væri í fullu starfi því það myndi veikja stöðu stjórnar varðandi eftirlit og ábyrgð.
„Eigendur félaga vilja að stjórnarmenn hafi önnur störf, öðlist reynslu og séu í tengslum við atvinnulíf og samfélag. Ekki að þeir séu inni í daglegum rekstri og verði samdauna núverandi ástandi. Hlutverk stjórna, hvort sem það er í hlutafélagi eða sveitarfélagi er að að setja stefnu, sinna eftirliti með rekstri og halda stjórnendum ábyrgum.“
Róbert segir að sem leiðtogi Viðreisnar ætli hann að beita sér fyrir breytingum í borgarstjórn til að bæta stjórnarhætti, auka traust og lækka kostnað.