

Yfirvöld í Sádi Arabíu settu nýtt met á árinu 2025 þegar 356 einstaklingar voru teknir af lífi. Þetta gerir að meðaltali um eina aftöku á hverjum einasta degi. Ástæðan fyrir aukningunni á undanförnum árum er stríð yfirvalda við fíkniefnasala.
Sádi Arabía hefur verið í þriðja sæti á undanförnum árum þegar kemur að aftökum, á eftir Kínverjum og Írönum. Talið er að Kínverjar taki meira en þúsund manns af lífi árlega og Íranir hafa tekið mjög marga af lífi á undanförnum árum vegna mótmælaöldunnar gegn stjórnvöldum á undanförnum árum.
Þessi þrjú ríki hafa tekið langsamlega flesta af lífi á undanförnum árum. Hafa ber þó í huga að í Íran búa hátt í 100 milljónir manna og í Kína 1,5 milljarður en í Sádi Arabíu aðeins um 37 milljónir.
Til samanburðar þá voru 47 teknir af lífi í Bandaríkjunum á árinu og í öðrum ríkjum þar sem dauðarefsing er viðhöfð eru aftöku yfirleitt nokkrir tugir eða jafn vel innan við tíu. Þar á meðal í mjög fjölmennum ríkjum eins og Egyptalandi og Bangladess.
Ástæðan fyrir því að Sádar hafa tekið svo marga af lífi á undanförnum árum er herferð yfirvalda gegn fíkniefnasölum. Eins og segir í frétt The Daily Mail um málið hefur Sádi Arabía verið gróðrarstía fyrir sölu á efni sem kallast captagon, sem er amfetamín skylt efni búið til í tilraunastofum. Efnið hefur einkum verið framleitt í Sýrlandi.
Yfirvöld í Sádi Arabíu hafa hert landamæraeftirlit sitt til muna og sett upp eftirlitsstöðvar víða á þjóðvegum innanlands. Hafa milljónir captagon taflna verið gerðar upptækar og fjöldi smyglara eða burðardýra tekin höndum.
Dauðarefsing liggur við innflutningi og sölu fíkniefna í Sádi Arabíu líkt og í 34 öðrum löndum, einkum Asíulöndum. Sádi Arabía framfylgir þessu hins vegar af meiri hörku en flest önnur ríki.
Þetta gengur í berhögg við þær tilraunir Sáda til þess að bæta ímynd sína á alþjóðavísu sem kemur fram í stefnunni Vision 2030. Þar segir að landið ætli að verða umburðarlyndara og frjálslyndara, meðal annars til þess að laða til sín fleiri ferðamenn og gera landið ekki jafn háð olíuútflutningi.
Sádi Arabía hefur einnig hrundið af stað ýmsum verkefnum til þess að auglýsa sig og bæta ímyndina. Til að mynda mun landið halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2034.
Samtök eins og Amnesty International hafa gagnrýnt Sáda harðlega fyrir refsihörku sína. En yfirvöld segja aftökurnar nauðsynlegar til þess að viðhalda allsherjarreglu í landinu. Þá halda stjórnvöld því einnig fram að fjöldi aftaka sé ekki óeðlilegur og að aftökur séu aðeins framkvæmdar þegar aðrar leiðir hafi verið fullreyndar.
Fíkniefnasala og smygl er langt frá því að vera eini glæpurinn sem dauðarefsing liggur við í Sádi Arabíu. Til dæmis liggur dauðarefsing við samkynhneigð, framhjáhaldi, guðlasti, göldrum og njósnum.
Flestar aftökur eru afhöfðanir með sverði en einnig er stundum notast við aftökusveit. Framan af voru flestar aftökur í landinu opinberar, meðal annars fjöldaaftökur, en á seinni árum hafa aftökurnar að mestu eða öllu leyti verið færðar úr almannarýminu. Meðal annars til þess að bæta ímyndina.